152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:23]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf):

Frú forseti. Ég vil ræða hér um söluferli á Íslandsbanka sem átti sér stað í síðustu viku. Hvað erum við að horfa upp á hérna? Jú, við sjáum að kjörnir fulltrúar eru að selja eignir okkar á undirverði svo að fjárfestar geti grætt og haldið áfram í partíinu því að þeir sakna svo sárt ársins 2007. Ég vil minna á fræg orð sem Árni Mathiesen lét falla 17. mars árið 2007, með leyfi forseta: „Drengir, sjáið þið ekki veisluna?“ Þetta sagði hann þegar hann var spurður að því hvort ekki ætti að taka alvarlega viðvaranir greiningardeilda og erlendra banka. Hvað gerðist? Fjárfestarnir og eigendur bankanna héldu áfram í partíinu þangað til allt hrundi og almenningur sat uppi með skítinn. Almenningur sem aldrei var boðið í partíið var látinn borga gegndarlausa græðgi fjárfesta.

Ef bankakreppan hefði ekki komið til hefðu skattgreiðendur aldrei eignast tvo einkabanka. Í fyrrnefndri bankakreppu fór fjöldi banka á hausinn á heimsvísu. Einkabankar eru alltaf að fara á hausinn. Samkvæmt þekktri rannsókn urðu á árabilinu 1970–2011 147 bankagjaldþrot í heiminum. Þrátt fyrir að menn segi að löggjöf sé mun betri um bankakerfið í dag en áður þá er þar ekki á vísan að róa. Í fyrsta lagi vinna lobbíistar bankakerfisins að því að reglurnar séu rýmkaðar svo hægt sé að fara að gambla aftur. Og þeim hefur yfirleitt orðið að ósk sinni í ljósi sögunnar. Ástæðan fyrir því að til hefur komið sérstök löggjöf um tryggingar á bankainnstæðum eru þessi tíðu gjaldþrot einkabankanna. Oftar en ekki eru það skattgreiðendur sem standa straum af sandkassaleik einkabankanna. Það eru margir sem telja að þeir einu sem geti rekið banka séu einkaaðilar. Það eru margir sem telja að ríkið eigi alls ekki að reka banka. Það eru engar forsendur fyrir því í ljósi sögunnar.

Það ríkir ekkert traust gagnvart núverandi bankakerfi og það er ekkert skrýtið. Leyfið almenningi að lifa við traust bankakerfi. Því tel ég mig geta fullyrt með nokkrum sanni að ef menn vilja endilega einkavæða bankana aftur þá eru þeir að bjóða skattgreiðendum upp á óútfylltan tékka til þess eins að einhverjir fjárfestar fái að leika sér með bankana um óákveðinn tíma. Ættum við ekki að læra af sögunni? Það er mælikvarði á greind að endurtaka ekki sömu hlutina aftur og búast við annarri niðurstöðu. Með leyfi forseta: „Insanity is doing the same thing over and over and expecting different results.“ Geðveiki er að gera það sama aftur og búast við mismunandi niðurstöðum. Til að koma í veg fyrir geðveiki á Alþingi Íslendinga verðum við að forðast að auka hlut einkabankanna því að það mun bara lenda á skattgreiðendum fyrr eða síðar samkvæmt sögunni.

Það eru fleiri valmöguleikar í stöðunni en síendurtekin einkavæðing bankanna. Stór skaðaminnkandi aðgerð er að stofna samfélagsbanka. Að stofna litla kósí samfélagsbanka mun ekki breyta neinu og getur því ekki verið takmark ef maður vill minnka tök auðvaldsins á bankakerfi Íslands og minnka skaða almennings sem þarf síðar að standa undir gjaldþroti. Til að tryggja hagsmuni skattgreiðenda sem björguðu einkabönkunum eftir einkavæðingu þeirra á sínum tíma verður að stofna sterkan og öflugan samfélagsbanka. Sá samfélagsbanki þarf að vera stór. Hann verður að vera stærsti bankinn á Íslandi. Hann verður að vera ráðandi. Hann verður að vera stóri bróðir sem aðrir bankar halla sér að ef þörf er á. Til þess að hann verði þetta stór verða bæði ríkið og sveitarfélögin að skipta við hann. Slíkur banki er eingöngu viðskiptabanki en stundar ekki fjárfestingarstarfsemi. Hann er eign ríkis og sveitarfélaga. Hans markmið er ekki hagnaður nema til að byggja sjálfan sig upp. Þess vegna býður hann ódýrari þjónustu en aðrir bankar. Hann skilar að mestöllu leyti hagnaði til skattgreiðenda. Það er eðlismunur á samfélagsbanka og einkabönkum. Einkabankar sinna hluthöfum en samfélagsbankar sinna almenningi. Þar sem samfélagsbankar stunda ekki fjárfestingarstarfsemi, þ.e. spilavíti einkabanka, eru mun minni líkur á því að þeir lendi í fjárhagsvandamálum eða gjaldþroti.

Ég vil líka leiðrétta þann misskilning sem komið hefur hér fram um það að Íbúðalánasjóður sé einhvers konar samfélagsbanki. Það er ekki hægt að líkja Íbúðalánasjóði við banka því að við getum ekki farið inn í Íbúðalánasjóð og stofnað bankabók. Ef fólk vill síðan hafa nokkra kósí einkabanka og standa í fjárfestingum þá er það bara í góðu lagi svo lengi sem við almenningur þurfum ekki að borga tap þeirra.

Af hverju er ég að tala svona mikið um gallana á þessu bankakerfi? Það er af því að við erum nauðbeygð til að stunda viðskipti við banka sem eru bæði fjárfestingarbankar og viðskiptabankar. Við almenningur viljum fá val. Við almenningur höfum engan áhuga á því að „víla og díla“ á forsendum fjárfesta. Okkur langar einfaldlega að eiga venjuleg viðskipti við bankann okkar, banka sem færir launin okkar til bókar, veitir okkur lán til að eiga þak yfir höfuðið og kannski fá lán til að kaupa bíl eða ferðast, því að flest viljum við bara eiga venjulegt líf þar sem við erum örugg og getum treyst því að bankinn okkar sé traustur svo við getum einbeitt okkur að fjölskyldunni og almennt notið lífsins. Svo er ákveðinn hópur í þjóðfélaginu sem hefur ánægju af því að græða og gambla með peninga, svona fagfjárfestar sem er búið að nefna hér oft í dag. Þessi hópur hefur fullan rétt á því að spila með peningana sína. Mér finnst líka almenningur hafa fullan rétt á því að sleppa því að vera þátttakandi í þeim leik þeirra. Þess vegna viljum við í Flokki fólksins berjast fyrir því að stofna venjulegan viðskiptabanka sem vinnur fyrir fólkið og tekur ekki þátt í spilavíti fjárfestingarbankanna.