152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:31]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Í umræðu um eignarhald í Íslandsbanka og stóru bankana er ekki hægt að láta hjá líða að ræða mikilvægi þess að tryggja starfsumhverfi smærri fjármálastofnana í landinu og þá ekki síst þeirra sem eru í dreifðri eignaraðild og í raun félagslegri eigu eins og sparisjóðirnir sem eftir standa. Ég vil nefna hér sérstaklega Sparisjóð Strandamanna, Sparisjóð Suður-Þingeyinga, Sparisjóð Höfðhverfinga og Sparisjóð Austurlands; samfélagsbanka eða ígildi þeirra sem við höfum mörg talað fyrir undanfarin ár, banka sem fólki þykir vænt um, þekkir og þjóna nærumhverfinu. Nokkrir sparisjóðir stóðu af sér hrunið og áhlaup stóru bankanna til að gleypa þá, ljótur atgangur sem dapurlegt var að fékk að viðgangast. Þeir eru stoðir í héraði fyrir íbúa og fyrirtæki þar sem þá er að finna. Í umræðu um eignarhald banka á Íslandi megum við ekki gleyma þessari sögu og hversu mikilvægt það er að einn stóru bankanna, Landsbankinn, verði áfram í samfélagslegri eigu allra landsmanna, að stuðlað sé að sem dreifðastri eignaraðild hinna stóru bankanna, eins og nú þegar losað er um eignarhald ríkisins á Íslandsbanka, og að við stöndum vörð um og tryggjum framtíð samfélagsbanka eins og sparisjóðanna sem umfram aðrar bankastofnanir sýna í verki samfélagslega ábyrgð víða á landsbyggðinni. Við í Vinstri grænum höfum aldrei haft þá stefnu að ríkið ætti að eiga allt bankakerfið, en það er skýrt í okkar huga að Landsbankinn verði ekki seldur. Sú stefna hefur ekki breyst. Við þá stefnu mun VG standa eins og við stóðum við hana á seinasta kjörtímabili. Þetta er skynsamleg nálgun að mínu mati, að ríkið, almenningur eigi Landsbanka, svipuð nálgun og Norðmenn hafa tileinkað sér. Fyrir okkur sem höfum sjálfstæðan gjaldmiðil skiptir það talsverðu máli til þess að tryggja sjálfstæði íslensku krónunnar. Meðal annars þess vegna er ég talsmaður þess að við, almenningur, samfélagið, höldum eignarhaldi á a.m.k. einum ríkisbanka og það ætti að vera Landsbankinn.

Íslandsbanki kom í fang ríkisins með tilteknum hætti í tengslum við stöðugleikasamninga og salan nú hefur haft langan aðdraganda. Salan er í fullu samræmi við stjórnarsáttmála og eigendastefnu og hafði m.a. eftirfarandi markmið: Að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu, að tryggja æskilega samkeppni á fjármálamarkaði, að tryggja ágóða ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum, að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma, að auka fjárfestingarmöguleika fyrir almenning á Íslandi og fagfjárfesta, að minnka skuldsetningu og auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Ég sé ekki betur en að fyrirkomulag sölunnar hafi uppfyllt þessi markmið.