Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

dagskrártillaga.

[11:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Smá dæmi um það hvernig gengur í þessu máli: Þegar við erum að tala um atkvæðagreiðsluna í þessu máli er kallað úr sal, hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson kallar bara: Þetta stenst stjórnarskrá, en mætir ekki hérna í ræðustól Alþingis til að fara í gegnum hverja og eina einustu umsögn þar sem er fjallað um agnúa hverrar og einnar einustu greinar við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála. Nei, hann gerir það með frammíköllum úr þingsal. Það er staðan sem við erum að glíma við hérna og erum að reyna að benda á. Og við höldum því bara áfram, það er ekkert flókið því að málið er það alvarlegt. Það ættu allir að taka það alvarlega þegar svona margir umsagnaraðilar benda á möguleg mannréttindabrot í frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Ég veit að það tók Miðflokkinn einungis eitt álit vegna orkupakkans til að tala um málið hér í, ég veit ekki hvað marga daga. Þetta eru 20 álit um miklu fleiri greinar, þannig að: Bíðið bara.