153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að taka upp þráðinn þar sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson skildi við hann, af því að hann er þar að tala um kærufrestinn og vanrækslu Útlendingastofnunar gagnvart því að sinna rannsóknarskyldu sinni og að það sé skrýtið að þau komist upp með það. En málið er að þau komast ekki alltaf upp með það. Það hefur nefnilega gerst allnokkrum sinnum að Útlendingastofnun hefur verið gerð afturreka með sínar ákvarðanir vegna þess að málið hefur ekki verið nægilega rannsakað. Í því ljósi verð ég eiginlega að lýsa yfir ánægjulegri undrun minni yfir því að það sé ekki hreinlega verið að afnema rannsóknarregluna í þessu frumvarpi þegar kemur að umsækjendum um alþjóðlega vernd. Það þykir ekkert tiltökumál að afnema kæruheimildir í ýmsu. Fólk getur ekki kært mat á því hvort það sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það er ekki hægt að kæra niðurstöður aldursgreiningar. Þessi réttindi eru afnumin, bara með einhverri línu í lögum um útlendinga og nú reynir lítið á þetta þar sem þessi mál ná ekki fyrir dómstóla. Og nú á að afnema heimild einstaklinga til að fá mál sín endurupptekin ef forsendur hafa breyst. Þannig að ég bíð bara eftir frumvarpi frá hæstv. dómsmálaráðherra þar sem sjálf rannsóknarreglan og jafnvel jafnræðisreglan og aðrar grundvallarreglur stjórnsýsluréttar, sem eru nú farnar að teljast til einhvers konar borgaralegra réttinda, verða afnumdar, líka þegar kemur að flóttafólki, því að líkt og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór yfir þá virðist stundum vakna upp sú spurning hvort stjórnarskrá, og þar með mannréttindin sem þar eru, eigi yfir höfuð við um útlendinga. Eru þessir útlendingar nokkuð með þessi mannréttindi? Stundum fer maður að efast um að allir hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að já, útlendingar hafa líka mannréttindi.

Ég ætla aðeins að halda áfram að röfla um þessa 7. gr. sem er mér mjög hugleikin vegna þess að hún felur í sér alveg gríðarlega alvarlega skerðingu á möguleikum flóttafólks til að fá ranga ákvörðun leiðrétta. Það er beinlínis tilgangurinn. Ég ætla að fara aðeins aftur í greinargerð með frumvarpinu. Með leyfi forseta:

„Skýrt er tekið fram að endurtekin umsókn“ — beiðni um endurupptöku, eins og það er í dag, það verður kallað endurtekin umsókn í þessum nýju lögum — „frestar ekki framkvæmd fyrri ákvörðunar en því stjórnvaldi sem er með umsóknina til skoðunar er heimilt að fresta réttaráhrifum enda hafi umsækjandi óskað eftir því þegar hin endurtekna umsókn var lögð fram og sýnt fram á“ — svo stendur reyndar í lagaákvæðinu: „brýna“ — „nauðsyn þess að fresta framkvæmd. Við framkvæmd laga um útlendinga hefur verið deilt um hvort og þá hvenær eðlilegt sé að fresta framkvæmd ákvörðunar þegar lögð hefur verið fram beiðni um endurupptöku. Því þykir rétt að kveða skýrt á um hvenær eðlilegt sé að stjórnvöld fresti framkvæmd fyrri ákvarðana.“

Ég ætla að láta staðar numið í tilvitnuninni hér. Fram kemur að það hafi vakið upp vafa í framkvæmd hvort og hvenær eigi að fresta framkvæmd vegna beiðni um endurupptöku. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem ég myndi segja að væri orðið kerfisbundð vandamál, en sem þarf ekki að leysa með lagabreytingu heldur einfaldlega með því að stjórnvöld fari að fylgja lögum. Það er nefnilega þannig að stjórnvald getur frestað framkvæmd og t.d. mál þeirra einstaklinga sem voru fluttir úr landi, eins og frægt varð m.a. þegar Hussein Hussein og hans fjölskylda voru flutt úr landi, sem vakti mikinn óhug, þeir einstaklingar, mjög stór hluti þeirra ef ekki bara allir, ég þori ekki alveg að fara með það, alla vega stór hluti hópsins var með beiðni um endurupptöku í skoðun hjá kærunefnd útlendingamála. Svo kemur auðvitað á daginn að fallist er á þorra beiðna um endurupptöku í þessum málum þannig að fólkið þarf að koma aftur. Hvers vegna var þá verið að senda þau úr landi? Jú, ég skal segja ykkur hvers vegna þau voru send úr landi: Vegna þess að kærunefnd útlendingamála — þegar óskað er eftir frestun réttaráhrifa, þ.e. eftir frestun flutnings, það er óskað eftir beiðni um endurupptöku vegna þess að forsendur hafa breyst, sem þær gerðu í þessum málum, þá svarar kærunefndin ekki þessum beiðnum. Og á meðan hún svarar ekki beiðninni þá er engin frestun. Það eina sem þyrfti að gera til að laga þetta er að kærunefndin myndi svara þessum beiðnum, bara já eða nei. Ef kærunefndin telur að það sé vika eða tvær vikur í að hún komist að niðurstöðu þá ætti hún auðvitað bara að fresta framkvæmdinni. Það er ódýrast fyrir alla, skilvirkast fyrir kerfið, best fyrir alla. En það gerir hún ekki, hún svarar ekki beiðninni. Og hér er bara tekið af skarið um það: Nei, það frestar ekki framkvæmd. Hvaða skilvirkni er í því? Þannig að það er verið að ýta undir þá framkvæmd sem við erum búin að horfa upp á, að fólk sé flutt úr landi. Og svo er því náttúrlega reddað í þessu frumvarpi með því að kveða á um að ef fólk fer úr landi þá fellur málið niður. Málið er leyst. — Ég óska eftir því, forseti, að fá að fara aftur á mælendaskrá.