153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég ætla að nota dagsbirtuna og vonandi vel vakandi þingmenn sem eru að hlusta til að koma á framfæri nokkrum lykilupplýsingum, fyrst úr mannréttindasáttmála Evrópu, sem tengjast þessu frumvarpi. Við höfum einmitt bent á að það séu atriði í frumvarpinu eða í framkvæmd og vinnu Útlendingastofnunar á þessu sviði sem stangist hreint og beint á við lögin um mannréttindasáttmála Evrópu. Ég fór yfir yfirlit um réttindi og frelsi og mig langaði að stinga fyrst niður í 3. gr. sem fjallar um bann við pyndingum.

3. gr. er stutt og laggóð og í henni segir, með leyfi forseta: „Enginn maður skal sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“

Mig langar að taka sem dæmi um þetta atburði sem við fengum öll að sjá hér fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan, í desembermánuði, þar sem m.a. var verið að vísa úr landi fötluðum manni og fjölskyldu hans. Sú meðferð sem viðkomandi fékk í þeirri aðgerð lögreglu og Útlendingastofnunar getur ekki kallast neitt annað en vanvirðandi og ómannleg. Það er sorglegt að sjá að lögreglan og Útlendingastofnun hafi ekki einu sinni beðist afsökunar á þessari meðferð heldur einfaldlega sagt: Við þurfum bíl sem getur flutt fólk í hjólastólum. Ef það er eini skilningurinn og eini lærdómurinn sem ríkislögreglustjóri og Útlendingastofnun draga af því sem við sáum gerast þá held ég að við þurfum virkilega að fara að skoða hvernig þær stofnanir vinna.

Annað sem tengist þessu atviki í desember er að þessi fjölskylda var að bíða eftir að mál hennar yrði tekið fyrir fyrir dómi. Það er því miður þannig í lögunum í dag að ekki er beðið eftir því að dómsmeðferð hafi farið fram og það er gert þrátt fyrir að í 6. gr. mannréttindasáttmálans sé talað sérstaklega um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.“

Já, viðkomandi á rétt á því að mál hans sé tekið fyrir. En nei, Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra vilja senda fólk úr landi áður en kemur að þessu vegna þess að þannig geta þau reynt að verja sig fyrir því að fá á sig dóma (Forseti hringir.) um brot á mannréttindum, brot á stjórnarskrá (Forseti hringir.) og brot á alþjóðlegum samningum. — Frú forseti. Ég óska eftir því að komast aftur á mælendaskrá, sem kemur forseta væntanlega á óvart.

(Forseti (ÁLÞ): Algjörlega.)