Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:05]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir góðar leiðbeiningar eftir síðustu ræðu mína. Það er alltaf mikill akkur í því að hafa hér forseta með ekki bara góða reynslu úr þinginu heldur líka góða þekkingu á sögu þingsins og á því hvað þyki góður bragur hér á þingi og hvað þyki það ekki og færi ég virðulegum forseta þakkir fyrir slíkt.

Ég er búinn að vera að fjalla um, eins og forseti man kannski, flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. 16. gr. þess samnings fjallar um rétt til að leita til dómstóla. Ástæðan fyrir því að ég vil fara í gegnum þá grein er nýlegt dæmi þar sem verið var að vísa fólki úr landi sem ekki hafði fengið úrlausn sinna mála fyrir dómstólum, og mikilvægt að rifja upp fyrir ráðherra dómsmála, ráðuneyti hans og meiri hlutanum í allsherjar- og menntamálanefnd og þeim sem hér hlusta og eins kannski vonandi starfsfólki Útlendingastofnunar, sem vonandi er einnig að horfa, að þá gilda eftirfarandi reglur samkvæmt flóttamannasamningnum þegar kemur að réttinum til að leita til dómstóla. Það er í þremur málsgreinum og ætla að lesa þær allar áður en ég fer í útskýringar. Það hljómar svo, með leyfi forseta:

„1. Flóttamanni skal frjálst að leita til dómstóla í löndum allra aðildarríkjanna.

2. Í aðildarríki, þar sem flóttamaður hefur fast aðsetur, skal hann njóta sömu aðstöðu og ríkisborgari í þeim efnum, er varða leitun til dómstóla, þar með talin lögfræðileg aðstoð og undanþága frá því að setja tryggingu fyrir væntanlegum málskostnaði …“

Smá innskot: Þarna kemur einmitt þessi latneska setning sem ég óskaði eftir leiðbeiningu forseta um áðan en trygging fyrir væntanlegum málskostnaði heitir á latínu greinilega „cautio judicatum solvi“. Ég verð nú að viðurkenna að latínan mín hefur farið dálítið aftur á bak frá því að ég lærði Gaudeamus igitur fyrir útskrift úr Menntaskólanum í Kópavogi fyrir ansi mörgum árum síðan.

Ég ætla að halda áfram með 3. mgr. en í henni stendur, með leyfi forseta:

„3. Í öðrum löndum en því, sem flóttamaður hefur fast aðsetur í, skal honum veitt sama aðstaða og ríkisborgurum þess lands, sem hann hefur fast aðsetur í, að því er tekur til þeirra atriða, sem um getur í 2. tölulið.“

Þarna er verið að tryggja rétt flóttamanna til að leita til dómstóla. Það er mikilvægt að þessum rétti sé ekki hreinlega hent út í veður og vind, sér í lagi með því að senda fólk úr landi þegar mál þess er enn til meðferðar innan dómstóla. Eflaust gætu einhverjir sagt: Já, en kærir þá ekki bara flóttamaðurinn endalaust og heldur sér í landinu með því að vera alltaf að láta dómstóla fara í gegnum eitthvað? Það er nú einfaldlega þannig að dómskerfið er ansi duglegt við að vísa frá tilhæfulausum kærum þannig að ég held að við getum treyst á það.

Mig langar næst að fjalla um III. kafla þessa sáttmála og óska því eftir, og það kemur forseta kannski spánskt fyrir sjónir, að komast aftur á mælendaskrá.