Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:10]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég var við það að byrja á umfjöllun minni um fyrirhugaðar flóttamannabúðir í Reykjanesbæ en þetta er bara svo löng umræða að ég ákvað að byrja frá byrjun hér. Ég held að það hafi verið í október sem frumvarpið var fyrst lagt fram á þessu löggjafarþingi, útlendingafrumvarpið, og svo í kjölfarið var umræðan allt í einu komin út í að reisa flóttamannabúðir í Reykjanesbæ. Þessari hugmynd var kastað fram á þeim forsendum að auka skilvirknina og að það muni ekki kosta ríkið jafn mikinn pening að veita þessu fólki húsnæði.

Margra milljarða flóttamannabúðir reistar í einu kjördæmi, Suðurkjördæmi. Þar þarf að redda húsnæði, þar þarf að redda einhvers konar grunnþjónustu. Það er náttúrlega að fara að hlaupa á mörgum milljörðum. Því spyr ég hvort Sjálfstæðisflokkurinn haldi virkilega að þetta sé að fara að borga sig meira en að byggja upp innviðina, sem við erum búin að tala svo mikið um hér, sem eru að fara að nýtast öllum, bæði Íslendingum og þeim sem hingað leita í neyð. Ég held að þetta hafi bara verið rosalega vanhugsuð hugmynd þegar henni var kastað fram. Talað var um þetta opinberlega eins og þetta væri bara það sniðugasta sem hæstv. dómsmálaráðherra hefði dottið í hug. En mér sýnist hann hafa ekki talað við kóng eða prest um þessa hugmynd. Eins og hæstv. mennta- og barnamálaráðherra útskýrði fyrir mér í gær; þegar hugmyndum er kastað fram, sérstaklega lagafrumvörpum, þá þarf þetta að fara í gegnum ríkisstjórnina og ríkisstjórnin þarf að ræða þetta. Mér sýndist hann bara ekkert hafa borið þetta undir ríkisstjórnina, þau félags- og vinnumarkaðsráðherra og hæstv. forsætisráðherra.

Ég bind nú ekki miklar vonir við að Vinstri græn séu að fara að veita hæstv. dómsmálaráðherra aðhald, enda erum við hér komin í dag. Við erum að ræða þetta frumvarp áttunda daginn í röð af því að það er svo margt sem þarf að ræða og við erum ekki búin að fá neina staðfestingu á því að fjallað verði efnislega um þau atriði sem við erum búin að fjalla um hér — og þá lagalegu annmarka sem hefur verið komið á framfæri, bæði af þingmönnum og umsagnaraðilum og viðeigandi samtökum og stofnunum sem hafa náttúrlega miklu meiri kunnáttu og vitneskju um þetta en hæstv. dómsmálaráðherra — þegar þetta frumvarp fer aftur í nefnd á milli 2. og 3. umr. Mér þykir það voðalega leiðinlegt út af því að eins og ég er búin að vera að ítreka hér þá erum við ekki bara að segja eitthvað. Við erum búin að fara í góða og djúpa greiningu á þessu frumvarpi. Þetta er ekki mjög ólíkt hinum fjórum frumvörpunum sem voru lögð fram. Jafnvel þó að hæstv. dómsmálaráðherra vilji meina að hann sé búinn að taka út það versta í frumvarpinu þá er það alls ekki þannig. Niðurfelling á grunnþjónustu er bagaleg og örugglega ekki í samræmi við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu, eins og lögfróðir og glöggir aðilar hafa bent á.

Síðan 2. gr., varðandi það að synjun á efnismeðferð sætir sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála og greinargerðin þarf að berast innan 14 daga. Það er bara að fara að minnka skilvirknina. Ég ætla bara að vera hreinskilin og segja að mér finnst þetta bara frekar vanhugsað frumvarp. Ein leið til að koma í veg fyrir alla þessa umræðu um þetta frumvarp og vankanta á þessu frumvarpi og alla annmarka á frumvarpinu er t.d. ef meiri hlutinn hefði ekki tekið sér meiri hluta í öllum nefndum. Ég man þegar þessi ríkisstjórn var sett saman og þing kom aftur saman eftir nokkra mánuði og ég frétti af því að meiri hlutinn hefði tekið sér meiri hluta í öllum nefndum og nefndarformennsku í öllum nefndum nema einni, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þó það nú væri. Þá fékk ég bara svona högg í magann, út af því að jafnvel þó að þingmenn Pírata séu búnir að koma góðum punktum hér á framfæri síðustu daga og síðustu viku er engin trygging fyrir því að það verði fjallað efnislega um þetta. Ég veit ekki hvort einn þingmaður Pírata er að fara að ná að sannfæra heila nefnd um að taka þessi atriði, alla þessa annmarka, sem við höfum bent hér á, til efnislegrar umfjöllunar innan nefndarinnar og guð veit hvað frumvarpið verður lengi í nefnd, kannski bara í einn dag, kannski bara í tvo. Kannski bað hv. þm. Jódís Skúladóttir um að fá frumvarpið aftur í nefnd bara til þess að friðþægja Pírata.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá.