Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:53]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég var þegar frá var horfið að fjalla um IV. kafla flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og náum við kannski að klára þann kafla núna og jafnvel næsta ef ég röfla ekki of mikið um eitthvað allt annað. Ég var kominn að 23. gr., sem fjallar um opinbera aðstoð, en í henni segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríki skulu veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, sama rétt til opinberrar aðstoðar og hjálpar og veittur er ríkisborgurum þeirra.“

Í 24. gr., sem fjallar um vinnulöggjöf og félagslegt öryggi, segir:

„Aðildarríkin skulu veita flóttamönnum, sem löglega dvelja í löndum þeirra, sömu aðstöðu og ríkisborgurum er veitt, að því er tekur til eftirtalinna atriða.“ — og ég ætla að lesa b-lið — „Félagslegt öryggi (lagaákvæði, sem varða atvinnuslys, atvinnusjúkdóma, meðgöngu og barnsburð, sjúkdóma, örorku, elli, dauða, atvinnuleysi, fjölskylduframfæri og hver þau önnur tilfelli, sem félagslegar tryggingar taka til samkvæmt lögum eða reglugerðum) með eftirtöldum takmörkunum …“

Ég ætla ekki að vera að tefja tímann með því að telja þær takmarkanir upp þar sem þær koma ekkert sérstaklega inn á þetta. En þarna er einmitt tekið á þessu með meðgöngu, barnsburð og sjúkdóma og að það sé mikilvægt að við séum að veita flóttamönnum það félagslega öryggi sem þarna er skilgreint.

En nóg um IV. kaflann. Við skulum reyna að vera dugleg að komast áfram. Í V. kafla er talað um ráðstafanir framkvæmdarvalds og við skulum muna að framkvæmdarvaldið í þessu tilfelli er ráðuneytið og Útlendingastofnun. Í 31. gr. er fjallað um ólöglega landvist flóttamanna og æsast þá leikar, frú forseti. Í 1. mgr. stendur:

„Aðildarríkin skulu ekki beita refsingum gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins eða vistar þar, ef þeir koma beint frá landi, þar sem lífi þeirra eða frelsi var ógnað í merkingu 1. gr., og koma inn í lönd þeirra eða eru þar án heimildar, enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöldin og beri fram gildar ástæður fyrir hinni ólöglegu komu sinni eða vist þar.“

Þarna er akkúrat verið að fjalla um þá sem sækja um alþjóðlega vernd, sækja um hæli. Það má ekki beita refsingum gagnvart þeim þegar þeir koma til landsins. Með öðrum orðum má ekki segja: Þú ert hér að koma ólöglega, kannski á ólöglegu vegabréfi eða einhverju slíku, og nú ætlum við að refsa þér og setja þig í fangelsi. Það má alls ekki. Það er vert að hafa þetta í huga.

Ég ætla að klára 2. mgr. 31. gr. og fæ svo að fara aftur á mælendaskrá til að fara í 32. gr., sem fjallar um brottvísun. En 2. mgr. 31. gr. hljómar svo, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu ekki setja takmarkanir á ferðir slíkra flóttamanna fram yfir það sem nauðsyn krefur, og slíkum takmörkunum skal einungis beitt þar til staða þeirra í landinu er komin á fastan grundvöll, eða að þeim hefur verið veitt leyfi til þess að koma til annars lands. Samningsríkin skulu veita slíkum flóttamönnum hæfilegan frest og alla nauðsynlega fyrirgreiðslu til þess að afla sér heimildar til þess að koma til annars lands.“

Ég á tvær sekúndur eftir, frú forseti, og óska eftir að komast aftur á mælendaskrá.