Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:31]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég var hálfnaður með að fjalla um ansi áhugaverða grein Þórðar Snæs Júlíussonar í Heimildinni í morgun um erlenda ríkisborgara á Íslandi. Þegar frá var horfið var ég að tala um höfuðborgina. Það er svo sem athyglisvert að skoða líka önnur sveitarfélög hér á suðvesturhorninu. 6. liðurinn í greininni hljómar svo, með leyfi forseta:

„Fæstir erlendir ríkisborgarar á höfuðborgarsvæðinu búa á Seltjarnarnesi, eða 440 alls. Þeim fækkaði um tíu á árinu 2022. Alls eru þeir 9,4 prósent íbúa Seltjarnarness. Garðabær kemur þar á eftir með 1.150 erlenda ríkisborgara, sem eru einungis sex prósent íbúa bæjarins. Erlendum ríkisborgurum í Garðabæ fjölgaði um 200 á síðasta ári.“

Minn núverandi heimabær er það sem fjallað er um í 7. lið en næstum 30% íbúa í Reykjanesbæ eru af erlendu bergi brotin. Þar segir, með leyfi forseta:

„Af stærri sveitarfélögum landsins eru hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarar með búsetu í Reykjanesbæ. Þar eru þeir 6.470, eða rúmlega 29 prósent þeirra 22.060 íbúa sem bjuggu í sveitarfélaginu í lok árs 2022.“

8. liðurinn í þessari upptalningu fjallar um fjölda Pólverja á Íslandi en þar segir, með leyfi forseta:

„Ef allir íbúar landsins sem eru með pólskt ríkisfang byggju í sama sveitarfélagi væri það fjórða stærsta sveitarfélag landsins á eftir höfuðborginni Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.“ — Athyglisvert.

9. liðurinn fjallar um það hvernig fólk kom og fór en þar segir, með leyfi forseta:

„Alls voru aðfluttir umfram brottflutta á síðasta ári 9.910 talsins, en 640 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu af landi brott en til Íslands á árinu 2022. Það er umtalsverð breyting frá árunum 2020 og 2021, þegar 1.330 íslenskir ríkisborgarar fluttu til landsins umfram þá sem fluttu frá því.“

Eins og við munum var nú kórónuveirufaraldur á þeim tíma og margir leituðu hingað heim í vernd landsins. En það er sorglegt að sjá að íslenskir ríkisborgarar eru að flýja landið og því miður hefur það sýnt sig að þetta er oft það fólk sem er með hvað mesta menntun, og heilbrigðisstarfsfólk tiltölulega hátt í fjölda.

10. liðurinn í þessari áhugaverðu grein fjallar um Úkraínu en þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutfallslega hefur fólki frá Úkraínu fjölgað langmest hérlendis síðastliðið rúmt ár. Alls bjuggu 239 manns þaðan hér á landi í byrjun desember 2021 en 2.521 í byrjun þessa árs. Um er að ræða fólk sem er að flýja stríðsástand í Úkraínu, en um 60 prósent allra sem sóttu um vernd á Íslandi á síðasta ári komu þaðan.“

Já, frú forseti, við búum við breyttan heim. Það er þannig að Ísland er þegar orðið mikið fjölmenningarsamfélag og þó svo að við séum að tala um frumvarp sem hindrar þá sem flýja stríð og neyð víða um heim, hindrar komu þeirra hingað, þá mun erlendum aðilum fjölga hér á landi. Í næstu ræðu minni langar mig einmitt að tala um það hvernig við þurfum að fara að hugsa fram í framtíðina um að byggja upp innviði og annað til að takast á við þær áskoranir sem koma, bæði með fleira fólki sem sækir hingað í neyð og líka Evrópubúum sem eru að flýja, þannig að endilega bættu mér aftur á mælendaskrá, frú forseti.