Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:47]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Mig langar aðeins að rifja betur upp pólitíska ástandið sem ríkti hér seinni hluta árs 2017. Vorþingi lauk dálítið óvenjulega þegar var bætt við einum degi aftan á starfsáætlun til að greiða hér atkvæði um dómaraskipan í Landsrétti, þar sem þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafði handvalið hluta af umsækjendunum fram yfir þá sem metnir höfðu verið hæfastir og dregið afganginn af stjórnarliðunum með sér í þá óvissuferð — ja, ekki beint óvissuferð, það var nú varað við því hér í umræðum, í minnihlutaálitum, úti um allt, að þetta stangaðist á við lög og það varð jú niðurstaðan þegar þetta fór alla leið í gegnum dómskerfið. Ráðherra braut lög við þessa skipan og meiri hluti stjórnarflokkanna hjálpaði henni við það. Þetta var með spennuþrungnari dögum sem við höfum upplifað í þessum sal á síðustu árum og kannski ekki hægt að segja að stjórnarliðar hafi farið sérstaklega upplitsdjarfir út í sumarið. Þá fékk maður á tilfinninguna að þau hefðu ekki öll verið með hjartað alveg 110% í þessari ákvörðun heldur, eins og oft vill verða, eins og við kynntumst síðan ári síðar þegar þingmenn vörðu sama ráðherra vantrausti, með þeim orðum að þau styddu ekki það sem vantraustið snerist um, þau væru efnislega í rauninni sammála vantrauststillögunni en stæðu vörð um ríkisstjórnina og þess vegna væru þau til í að fella hana.

Svona fór stjórnarliðið inn í sumarið 2017. Yfir það sumar voru kannski tvær meginfréttir af pólitíkinni, annars vegar uppreist æru og hins vegar þær Mary og Haniye. Uppreist æru þekkjum við ágætlega, þetta stórundarlega mál þar sem í ljós kom að faðir þáverandi fjármálaráðherra, nú er hann búinn að vera í svo mörgum ólíkum stjórnum og embættum, ég held að hann hafi verið fjármálaráðherra þegar þetta gerðist, hafði skrifað upp á meðmælabréf fyrir dæmdan barnaníðing til að hann fengi uppreist æru. Þegar það kom í ljós þá þótti fólki eitthvað bogið við kerfið, alveg eins og fólki þótti eitthvað bogið við það þegar átti að sýna tveimur ungum stúlkum á flótta ómannúðlega meðferð og vísa þeim úr landi. Við báðum þessum fréttum brást hluti stjórnarliða með hefðbundnu hrokaviðbragði, fólk gerði lítið t.d. úr brotaþolum Róberts Árna Hreiðarssonar og fannst þetta mál um uppreist æru ekkert stórmál. Til dæmis var sagt að brotaþolar ættu alls ekki rétt á upplýsingum um málsmeðferðina, eitthvað sem var hrakið seinna. Eins brást dómsmálaráðherra ókvæða við þegar almenningur kallaði á bætta meðferð í málum þessara tveggja ungu stúlkna og talaði næstum eins og þetta væri bara eitthvert mál að dúkka upp í umræðunni og eitthvað sem henni dytti ekki í hug að bregðast neitt við. En þarna fengum við náttúrlega skýrt dæmi um það hvernig mannúðin í útlendingamálum getur flutt fjöll.