Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Enn er ég rifja upp stöðuna í stjórnmálum 2017. Mig langar aðeins að byrja á því að tala um hvað sú togstreita sem var innan stjórnarheimilisins leiddi beint inn í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er af mörgum ástæðum sem ég hef talað um allsherjar- og menntamálanefnd sem eina af skemmtilegustu nefndum sem fólk getur lent í hér inni á þingi en þarna birtist það svo skýrt. Eftir að þingi var frestað fyrir sumarið og við héldum flest út í sólina þá voru samt töluvert margir fundir í allsherjar- og menntamálanefnd miðað við meðalsumar. Þannig var boðað til fundar 16. júní, bara stuttu eftir þingfrestun, til þess að fjalla um vopnaburð lögreglu á litahlaupinu, eins og ég nefndi hér áðan, og þær fréttir sem höfðu komið í tengslum við fréttaflutning af litahlaupinu, að til stæði að vopnuð lögregla yrði á vappinu 17. júní. Þess vegna var þessi fundur boðaður 16. júní. Þarna sáum við náttúrlega kunnuglegt stef, dómsmálaráðherra að svara fyrir það að allt í einu sé verið að breyta ásýnd lögreglu og vopnaburði án þess að um það hafi farið fram sú umræða sem mörgum þótti eðlileg. Síðan var haldinn fundur 23. ágúst, það var nú um pínu óskylt mál en mér finnst gaman að nefna það vegna þess að þá kallaði nefndin mennta- og menningarmálaráðherra á fund vegna þess að hann virtist vera að vinna í því að koma Fjölbraut í Ármúla yfir til Tækniskólans að Fjölbraut forspurðri og einhvern veginn án þess að hafa áttað sig á því hvers konar styrkur væri í FÁ sem ekki myndi endilega færast yfir í Tækniskólann ef þessi opinberi framhaldsskóli væri gefinn þeim.

Svo var haldinn opinn fundur um uppreist æru 30. ágúst. Síðan, og það var nú það sem mig langaði að nefna sérstaklega, 7. september, það er þá tæpri viku áður en þing átti að koma saman hér og þingsetning að vera, 7. september 2017 er haldinn fundur í allsherjar- og menntamálanefnd um málefni flóttafólks og framkvæmd laga um útlendinga og það tengt skuldbindingum Íslands samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar erum við komin að því hvernig mál Mary og Haniye sem ég nefndi hér áðan, sem tengist síðan því frumvarpi sem varð að lögum nr. 81/2017, var dálítið rauður þráður þessar vikur í gegnum stjórnarslit og þingrof og inn í kosningar og í rauninni stjórnarmyndun eftir kosningar.

En kannski bara örstutt um þær. Þær koma úr mjög ólíkum áttum en eru kannski með svolítið keimlíka sögu. Haniye kom hingað til lands ásamt föður sínum Abrahim sem var öryrki eftir bílslys. Abrahim er frá Afganistan en fyrir 25 árum flúði hann þaðan til Írans og þar er Haniye fædd, og af því að hún var á flótta var hún ríkisfangslaus á þessum tíma. Þetta rifjar upp þá staðreynd að meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar núna er búinn að skella skollaeyrum við ábendingum Rauða krossins um að þær breytingar sem eru í frumvarpi Jóns Gunnarssonar muni fjölga börnum í sömu stöðu og Haniye, að vera fædd á flótta og verða ríkisfangslaus strax við fæðingu.