154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna.

13. mál
[18:29]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa skemmtilegu umræðu og spennandi umræðu og mikilvægu umræðu. Varðandi síðari spurninguna og síðara umræðuefnið þá blasir það við að mér finnst þetta ekki góð þróun og er mun hallari undir það að námslán ættu að falla niður við eftirlaunaaldur frekar en að það komi feitur tékki sem þarf að semja um að klára þangað til yfir lýkur. En það er auðvitað þannig að það eru mismunandi lánategundir í gangi þarna úti og þeir sem tóku lán á tíunda áratug síðustu aldar eru undir öðrum skilmálum, skilst mér, en þeir sem eru að taka lán í dag.

Hvað varðar fyrri spurninguna þá er skemmtilegt að rifja það upp að þessi umræða kom upp hér þegar ég var á þingi 1998–1999. Mig minnir að ég hafi ekki verið hrifinn af þessari hugmynd þá en hún kom upp í tengslum við byggðastefnu — eða ef ég man það rétt var ég ekki hrifinn af henni þá. Ástæðan fyrir því er kannski sú að þeir sem við viljum laða til starfa úti á landsbyggðunum eru ekkert endilega kannski með námslán á bakinu. Aðstaða fólks er mismunandi. Sumir eru með námslán. Eigum við að leggja það á þá að þurfa að fara í þessa þegnskylduvinnu frekar heldur en þá sem höfðu ráð á því að fara í gegnum sitt nám án þess að taka námslán? En ég er alveg til í að hlusta á öll góð rök í þessum efnum og hengi mig ekki í einhverjar kreddustefnur í þeim. Ef þetta er eitthvað sem laðar mikilvæga starfsmenn út á land, segjum dýralækna eða lækna eða heilbrigðisstarfsfólk eða annað starfsfólk sem skortur er á, þá held ég að þetta sé vel skoðandi.