132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[16:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú ekkert að ræða um umhyggju hv. þingmanns fyrir Framsóknarflokknum eða hv. þingmönnum hans. Ég ætla að ræða við hann um það sem hann telur vera hlutverk hlutafélaga.

Það er í sjálfu sér ekki hlutverk hlutafélaga að selja hlutafé. Það er heldur ekki hlutverk hlutafélaga að kalla eftir arði umfram önnur félög, eins og t.d. stofnbréf í sparisjóði eða sameignarfélög eða slíkt. Hlutverk hlutafélaga er að takmarka áhættu eigendanna við hlutaféð. Það er sú snilld sem fundin var upp með því að búa til þetta form, þ.e. að takmarka áhættu hluthafanna af atvinnurekstri við innborgað hlutafé og ekkert annað. Það að menn skuli fá arð, hann fá menn út úr sameignarfélögum, út úr samvinnufélögum, út úr sjálfseignarstofnunum o.s.frv. Það að menn geti selt hlutabréfin, menn geta selt sameignarfélög, menn geta selt ýmiss konar önnur form og menn geta selt stofnbréf sem kunnugt er. En aðalhlutverk hlutafélaganna, og það er einmitt það sem hefur gert þau svona vinsæl um allan heim, er að takmarka áhættu eigandans og það er mjög mikilvægt varðandi ríkið, að ríkið beri ekki fulla og ótakmarkaða ábyrgð á öllum gjörðum Ríkisútvarpsins eins og í dag. Sú ábyrgð verður takmörkuð. Þar með er samkeppnisstaðan réttari gagnvart þeim aðilum sem keppa við viðkomandi fyrirtæki.