132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

444. mál
[17:22]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var að spyrjast fyrir um af hverju það væri félagsstjórnar að samþykkja þetta stefnumið, af því að gert var ráð fyrir því í tillögum nefndarinnar að félagsstjórnir samþykktu ekki stefnumiðið heldur hluthafafundir. Hér er aðeins breyting frá því, það er félagsstjórnin samþykkir það, hún þarf að vísu að leggja það síðan fyrir aðalfund, ekki fyrir hluthafafund heldur aðalfund, og það er svona til viðmiðunar fremur en að það sé á nokkurn hátt bindandi. Mér finnst dálítið sérkennilegt að það sé allt í einu komið inn í lagafrumvarpið að það sé félagsstjórnin sjálf sem samþykkir stefnumiðið í stað þess að það sé hluthafafundar að samþykkja það og leggja það síðan fyrir stjórnina að framfylgja þeirri stefnu. Mér finnst það líka lykta af ákveðnum hagsmunaárekstri vegna þess að í þessari samþykkt félagsstjórnarinnar á m.a. að kveða á um laun og aðrar greiðslur til stjórnarmanna sjálfra. Mér finnst það skjóta nokkuð skökku við. Það var þetta sem ég vildi spyrja út í.

Annað sem ég vildi líka fá svar við er af hverju búið er að fella út úr frumvarpinu ákvæði um viðskipti við tengda aðila í hlutafélögum, þ.e. að skylt sé að upplýsa stjórn um öll viðskipti félagsins við tengda aðila ef viðskiptin teljist veruleg. Þetta var eitt af því sem gerð var tillaga um í skýrslunni og hljómar, a.m.k. fyrir okkur leikmönnum, skynsamlegt og til þess fallið að auka aðhald með störfum hlutafélaga. Þetta hefur verið fellt út og ekki er gerð tillaga um það í þessu frumvarpi. Ég spyr hvernig á því standi.