133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:28]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Fyrir skömmu fór ég norður í Kelduhverfi og kynnti mér hinar ósanngjörnu kröfur sem ríkið hefur gert í eignarlönd bænda. Ég furða mig á að menn skuli halda áfram með þessa vinnu. Auðvitað ber Sjálfstæðisflokkurinn og jú auðvitað B-deild hans, Framsóknarflokkurinn, alla ábyrgð á málinu og er furðulegt að verða vitni að ræðu hæstv. fjármálaráðherra, því að hann ber ábyrgðina, þegar hann kemur hingað og skýrir afstöðu sína í málinu, þá er hann bara að lýsa einhverri atburðarás eins og hann sé áhorfandi að þessu. Það er ekki svo, hann ber pólitíska ábyrgð á þessu verki og á störfum nefndarinnar. Það er mergurinn málsins.

Það sem ég furða mig á er að Sjálfstæðisflokkurinn er að þjóðnýta eignir. Reglan hefur verið á hinn veginn síðustu ár. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá einmitt verið að taka eigur almennings, fiskimiðin, og færa þau í eigu fárra. Að vísu hefur verið undantekning á þeirri reglu og það er þegar komið er að bændum, þá hefur verið annað upp á teningnum. Þegar komið er að bændum eru eignir teknar af þeim og vil ég minna á að útræðisréttur sjávarjarða hefur verið tekinn af þeim. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, og síðan fylgdi B-deildin á eftir og stóð fast við hliðina á Sjálfstæðisflokknum, svipt bændur útræðisrétti sínum og að þeir geti nýtt eignarlönd sín sem ná út að stórstraumsfjöruborði eða út fyrir það. Þetta eru verk Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks gegn landsbyggðinni. Ég furða mig á slíkum vinnubrögðum, frú forseti.