135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

uppbygging heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

336. mál
[14:37]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að þakka fyrir þessa fyrirspurn og sömuleiðis þau svör sem hæstv. ráðherra hefur gefið. Hér er vakið máls á einu af grundvallarmálunum sem snerta samfélagið í heild sinni. Það snýst um líf og heilsu og það snýst um þá samfélagsþjónustu sem hver og einn þarf á að halda hvar sem hann að öðru leyti er staddur í mannvirðingarstiganum.

Ég held að þessi mál hafi ekki setið á hakanum en auðvitað koma stöðugt upp vandamál. Það eru stöðugt ný viðfangsefni, þeim fjölgar sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Mér þykir vænt um að heyra að ráðherrann sé á fullu við að vinna að þróun og aukinni þjónustu á þessu sviði en ég vil aðeins að lokum koma því á framfæri sem mjög vinsamlegri ábendingu til hæstv. ráðherra að hann tali ekki (Forseti hringir.) um að verið sé að eyða peningum í þetta, við erum ekki að eyða peningum, við erum að verja peningum til góðra málefna.