139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs í annað skipti í 2. umr. um frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingu á samkeppnislögum.

Þann 7. desember sl. mælti ég fyrir nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar um frumvarpið en hann skipa ég og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Í skemmstu máli má segja að við gerum mjög alvarlegar athugasemdir við tillögurnar sem fram koma í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rekja allt það sem ég hef áður sagt um frumvarpið en ég kvaddi mér aftur hljóðs til að bregðast við því sem fram hefur komið um það í 2. umr. en einnig til að ítreka ýmis sjónarmið sem ég hef áður haft í frammi ásamt hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni.

Til að rifja það upp vil ég nefna að í þessu frumvarpi til breytinga á samkeppnislögum eru lagðar til breytingar sem allar eru íþyngjandi fyrir fyrirtækin í landinu þrátt fyrir að þær gangi að vissu leyti mismunandi langt, þ.e. sumar eru afar íþyngjandi en aðrar minna.

Það má segja að í frumvarpinu felist fjórþættar breytingar á samkeppnislögum. Sú fyrsta varðar breytingar á kærugjaldi. Í öðru lagi er lagt til að innheimt verði sérstakt samrunagjald. Í þriðja lagi er lagt til að Samkeppniseftirlitið fái heimildir til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla en fram til þessa hefur það sem lægra sett stjórnvald þurft að sæta ákvörðunum áfrýjunarnefndarinnar án þess að hafa málskotsheimild til dómstóla. Fjórða breytingin sem frumvarpið felur í sér er síðan sú viðamesta og mest íþyngjandi en í henni eru lagðar til breytingar á 16. gr. laganna. Þar er m.a. lagt til það sem kallað er í frumvarpinu breyting á atferli eða skipulagi fyrirtækja. Hún felur í sér heimild til Samkeppniseftirlitsins til að brjóta fyrirtæki upp vegna aðstæðna eða háttsemi sem kemur í veg fyrir eða takmarkar samkeppni eða raskar samkeppni.

Við þetta atriði frumvarpsins kýs ég að gera alvarlegar athugasemdir. Mér finnst fulllangt seilst að heimila Samkeppniseftirlitinu að taka ákvarðanir um að brjóta fyrirtæki upp án þess að þau hafi gerst brotleg við lög. Verið er að heimila Samkeppniseftirlitinu að brjóta upp fyrirtæki án þess að þau hafi nokkuð brotið af sér vegna aðstæðna sem eftirlitið telur að séu komnar upp á markaði. Þetta er verulega matskennd regla. Ég hef áður sagt og ég segi það enn að það er lágmarkskrafa að mínu mati að í lagatextanum sjálfum komi fram einhver leiðarljós og viðmið sem Samkeppniseftirlitinu ber að fara eftir ef menn telja nauðsynlegt, í ljósi þeirra aðstæðna sem upp koma á samkeppnismörkuðum, að heimila Samkeppniseftirlitinu slíkt inngrip í rekstur fyrirtækja.

Ég verð að segja að mér finnst býsna sérstakt að ýmsum fulltrúum stjórnarflokkanna, sem hafa í öðrum málum sagst bera hagsmuni fyrirtækjanna í landinu fyrir brjósti, sé svo umhugað um að heimila Samkeppniseftirlitinu svo viðamikið inngrip í rekstur þeirra. Ég hefði talið að eðlilegra væri að heimila Samkeppniseftirlitinu uppbrot á fyrirtækjum hefðu þau gerst brotleg við lög. Að færa eftirlitinu slíkar matskenndar reglur sem eru algjörlega óútfærðar í lagatextanum sjálfum er algjörlega óviðunandi.

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni gagnrýndi ég harðlega meðferð málsins í hv. viðskiptanefnd. Við í minni hlutanum óskuðum eftir því að fyrir nefndina yrðu kallaðir sérfræðingar í samkeppnisrétti, kennarar í samkeppnisrétti við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, til að fara yfir frumvarpið og gefa okkur a.m.k. munnlegt álit á efni þess. Það töldum við mikilvægt vegna þeirra miklu breytinga sem hér eru lagðar til á samkeppnislögum. Við þeirri beiðni var ekki orðið og fræðimenn á sviði samkeppnisréttar komu ekki fyrir nefndina áður en málið var afgreitt frá henni til 2. umr.

Síðar upplýsti hv. þm. Lilja Mósesdóttir mig um að á kröfu okkar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar yrði fallist. Málið verður því tekið inn í hv. viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. og þessir fræðimenn fengnir til að gefa nefndinni álit sitt á málinu. Ég vildi geta þessa vegna þeirrar hörðu gagnrýni sem ég hafði uppi varðandi málsmeðferðina í hv. viðskiptanefnd og þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur, formanni nefndarinnar, fyrir að verða við þessari beiðni.

Virðulegi forseti. Ýmislegt hefur verið sagt í umræðu um málið. Við sem höfum leyft okkur að gagnrýna efni þess og þá sérstaklega það atriði sem ég hef hér nefnt, þ.e. að heimila Samkeppniseftirlitinu að brjóta upp fyrirtæki án þess að þau hafi gerst brotleg við lög og án þess að sú matskennda valdheimild sé útfærð nákvæmlega í lagatextanum — þessi afstaða okkar hefur valdið því að stór orð hafa verið látin falla. Í umræðunni um málið fyrir jól var því t.d. haldið fram af hálfu varaformanns nefndarinnar, hv. þm. Magnúsi Orra Schram, að frumvarpið væri hugsað til þess að standa við bakið á neytendum, að virða réttindi neytenda og hugsa um hagsmuni þeirra. Þeir sem ekki treystu sér til að styðja frumvarpið eins og það væri, væru á móti neytendum og vildu vinna gegn hagsmunum neytenda.

Ég ætla að leyfa mér að andmæla þessari skoðun og vísa henni algjörlega til föðurhúsanna. Það að gera athugasemdir við að eftirlitsaðilum með viðskiptalífinu séu veittar heimildir til að brjóta upp fyrirtæki án þess að þau hafi gerst brotleg við lög hefur ekkert með neytendur að gera. Ég held að ég og félagi minn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugur Þór Þórðarson, berum alveg jafnmikla virðingu fyrir neytendum og aðrir sem hafa tekið þátt í umræðunni og við viljum tryggja hag neytenda sem mest. Ég held að þeir sem þannig tala ættu að fara varlega vegna þess að þegar aðfarir þeirra að neytendum upp á síðkastið eru skoðaðar kemur í ljós að virðing þeirra fyrir hagsmunum neytenda hrekkur skammt.

Hverjir eru neytendur á Íslandi? Ég mundi halda að neytendur séu í rauninni allir Íslendingar, allur þorri almennings á Íslandi. Hvernig hefur ríkisstjórnin og flokkarnir sem hana mynda og þeir hv. þingmenn sem hafa gagnrýnt okkur sem viljum fara vægar í sakirnar en frumvarpið mælir fyrir um, komið fram gagnvart neytendum og íslenskum almenningi í öðrum málum sem þá snerta á þinginu? Þar vísa ég t.d. til líklega mestu skattahækkana sem ráðist hefur verið í á lýðveldistímanum og ríkisstjórnin hefur staðið að og hv. þingmenn hafa stutt. Þær skattahækkanir eru aðför að neytendum og hv. þingmenn sem gagnrýna okkur nú, samþykktu þær allar. Nú þegar við gerum athugasemdir við að veita Samkeppniseftirlitinu mjög umfangsmiklar valdheimildir til að brjóta upp fyrirtæki sem ekki hafa gerst brotleg við lög, telja þeir sig þess umkomna að halda því fram að við sem gerum athugasemdir við þetta séum á móti neytendum. Ég hafna því alfarið.

Einn af þessum hv. þingmönnum, hv. þm. Magnús Orri Schram, var einn þeirra sem börðust eins og ljón fyrir því að Icesave-samningar ríkisstjórnarinnar yrðu samþykktir, Svavarssamningarnir svokölluðu, sem nú hefur komið á daginn að voru ómögulegir fyrir hagsmuni þjóðarinnar, hagsmuni íslensks almennings, hagsmuni neytenda. Síðan kemur þetta mál til umræðu á þinginu og hv. þingmenn sem þannig hafa gengið fram og vildu samþykkja alla þá samninga sem lagðir voru á borðið á Alþingi fyrir okkur þingmenn telja sig nú þess umkomna að halda því fram að við séum á móti neytendum.

Þetta er auðvitað ekki rétt. Þessi málflutningur er afar ómálefnalegur og ómerkilegur, leyfi ég mér að segja. Ég vona svo innilega að honum hafi verið beitt frekar sem einhvers konar málfundartrixi eða þætti í málfundaræfingu frekar en að þeir hv. þingmenn sem þannig hafa talað hafi haft einhverja sannfæringu fyrir því sem þeir sjálfir voru að segja.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég nefna í seinni ræðu minni um málið. Þær athugasemdir sem ég hef haft fram að færa og fram koma í nefndaráliti minni hlutans standa hafa ekki breyst. Ég þakka fyrir það tækifæri sem við nefndarmenn í hv. viðskiptanefnd fáum til að yfirfara málið enn frekar með sérfræðingum á sviði samkeppnisréttar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt vegna þeirra umsagna sem hafa komið fram í málinu og sömuleiðis vegna þess hversu víðtækar valdheimildir verið er að færa eftirlitsaðilum, í þessu tilviki Samkeppniseftirlitinu, gagnvart atvinnulífinu. Ég tel að vilji menn á annað borð ganga þá leið sem hér er lögð til verði að gera þá lágmarkskröfu að valdheimildirnar og uppbrotsheimildirnar sem frumvarpið byggir á séu skilgreindar með skýrum hætti í lögunum og það sé nákvæmlega útfært í lagatextanum sjálfum en ekki í nefndaráliti eða í greinargerð með frumvarpinu við hvers konar aðstæður heimildin verði virk. Það er t.d. hægt að gera með vísan til markaðshlutdeildar yfir ákveðnum mörkum, tilgreindri samþjöppun á markaði eða öðrum mælikvörðum sem almennt eru lagðir til grundvallar í samkeppnisrétti og eru mjög vel þekktir í samkeppnisfræðum. Þá mælikvarða þekki ég sjálfur ágætlega vegna þess að ég vann að fjölmörgum málum á sviði samkeppnisréttar áður en ég kom á þing. Ég vil biðja félaga mína í hv. viðskiptanefnd, hvort sem þeir tilheyra stjórnarmeirihlutanum eða stjórnarandstöðunni, að leggja höfuðið í bleyti og kanna hvort einhver flötur sé á því að ná samkomulagi um að þetta úrræði verði útfært með skýrari hætti en gert er í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Um leið og ég ítreka fyrri sjónarmið sem fram hafa komið í ræðunni hef ég ákveðið að ljúka henni.