141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[11:00]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er verið að gefa heimild til að selja að öllu leyti eða að hluta eignarhluti ríkisins í bönkunum. Þótt hlutirnir séu ekki háir í Arion banka og Íslandsbanka skipta þeir samt máli í því óvissuumhverfi sem banka- og fjármálaþjónusta er í landinu. Við erum enn í nauðasamningum um gömlu bankana og þá skiptir máli að halda hér stöðugleika og öryggi.

Þarna er líka heimild til þess að selja allt að 14–15% í Landsbankanum, þ.e. að eignarhlutur ríkisins fari niður í 70%, ríkið á núna um 84–85%. Ég hef verið þeirrar skoðunar og stend með henni og hef gert grein fyrir því í þingflokknum að við eigum ekki að selja hlut okkar í Landsbankanum, okkur ber að standa vörð um að eiga einn banka og ættum helst að eiga hann 100%. Ég er andvígur því að það sé verið að heimila hér sölu á hlut okkar í Landsbankanum. Við eigum að eiga einn ríkisbanka. Það er mín (Forseti hringir.) skoðun.