141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi það að hallinn verði á næsta ári meiri en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu er auðvitað miklu lengri umræða en við getum tekið í andsvörum. En það er rétt að því miður hefur á síðustu árum niðurstaðan verið umtalsvert hærri en fjárlögin sjálf en það helgast auðvitað af því að menn hafa verið að gjaldfæra dreggjarnar af áföllunum sem urðu í október 2008. Ég legg áherslu á að það sem skiptir okkur máli er að ná tökum á rekstri ríkissjóðs.

Það að enn þá séu að detta inn bakreikningar vegna þess sem var raunverulega tjón 2008 er eitthvað sem verður ekki umflúið. En það sem við þurfum að ná tökum á er rekstur ríkissjóðs til að geta greitt niður bakreikningana smátt og smátt. En þessir bakreikningar eru þarna og það er óhjákvæmilegt að taka þau högg inn á fjáraukalögum þegar þau koma.