141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[18:57]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir almennan áhuga hennar á fæðingarorlofsmálum. Ég hef hlustað á hana frá því að ég settist hér á þing árið 2009. Ég hef hlustað á margar ræður þingmannsins þar sem hún hefur gagnrýnt það mjög að við höfum þurft að skera svo mikið niður í fæðingarorlofsmálum eins og raun ber vitni því miður. Hún hefur einnig hvatt ríkisstjórnina mjög ákveðið til dáða í þeim málum að fara markvisst í það að byggja Fæðingarorlofssjóð upp aftur.

Nú stígum við ákveðið skref í þá átt með því að hækka þakið, þó að vísu hefði verið frábært ef við hefðum haft tækifæri til þess að gera það enn frekar. Hér er þó ágætis umfjöllun um það og markmiðið er að sjálfsögðu að eftir því sem ríkissjóði vex fiskur um hrygg ætlum við að gera það. Jafnframt erum við að lengja fæðingarorlofið og það gagnrýnir hv. þingmaður mjög og telur að við hefðum frekar átt að hækka þakið. Mig langar til að eiga við hana samtal um það, í veruleika dagsins í dag þar sem dagvistunarmál eru með þeim hætti sem þau eru þá langar mig til þess að fá frekari rök fyrir því af hverju — hér höfum við oft talað um að lagasetning þurfi að vera í takti við veruleikann. Verðum við ekki að horfast í augu við að það er nauðsynlegt fyrir börnin að búa við öryggi?

Mig langar líka til þess að eiga við hana örstutt samtal um það, því hún talar um fæðingarorlofið fyrst og fremst sem jafnréttistæki. Fyrir mér er það nákvæmlega jafnmikilvægt að börn í frumbernsku nái að bindast foreldrum sínum tilfinningaböndum, helst báðum. Skil ég sem sagt hv. þingmann þannig að henni finnist jafnréttisvinkillinn í þessu máli skipta mun meira máli en að barn í frumbernsku fái tækifæri til að bindast tilfinningaböndum við foreldri sitt (Forseti hringir.) með þeim þroskaáhrifum sem það hefur á barnið?