143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

framlagning stjórnarfrumvarpa.

[15:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í störf ríkisstjórnarinnar hér í þessum óundirbúna fyrirspurnatíma. Það læðist óneitanlega að manni sú hugsun, þegar maður horfir á dagskrá þingsins, hvað sé að frétta af verkstjórn hæstv. forsætisráðherra í þessari ríkisstjórn. Það er afar gisin og óræktarleg dagskrá þingsins í dag og þessa vikuna. Það er ekkert gamanmál vegna þess að við höfum séð það hér í störfunum að þegar mál koma mjög seint fram verða margvísleg mistök í vinnslu þingsins og dúkka ef til vill upp tölur á endasprettinum sem menn kannast ekki alveg við hvernig hafa orðið til.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað sé að frétta af málum ríkisstjórnarinnar, hvort einhver mál séu á leiðinni inn í þingið. Ef ekki vil ég benda honum á að fjölmörg góð mál, jákvæð og uppbyggileg, frá stjórnmálaflokki sem heitir Björt framtíð liggja tilbúin og hægt væri að fylla hina óræktarlegu dagskrá þingsins upp með þeim. Á ég þá ekki bara við hin stórgóðu mál um bjartari morgna, betri frí og flottari nöfn heldur líka stórgóð mál sem fela í sér mótun gjaldmiðilsstefnu fyrir þjóðina, mótun eigendastefnu fyrir Landsvirkjun og svo mætti lengi telja.

Það læðist óneitanlega að manni sá grunur að ákveðið andleysi og hugmyndaleysi ríki hjá hæstv. ríkisstjórn og ég vil gefa hæstv. forsætisráðherra tækifæri til að rökstyðja að svo sé ekki. Ég vil kannski reyna, með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, að hvetja ríkisstjórnina til að koma í veg fyrir að hér myndist það ófremdarástand sem gjarnan gerist í lok þings.