144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

framlög til háskólastarfs.

255. mál
[16:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda og öðrum hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Ég vil segja strax í upphafi og leggja áherslu á að sú vinna sem hefur farið fram í mennta- og menningarmálaráðuneytinu á undanförnum mánuðum snýr að því að greina stöðu íslenska háskólakerfisins til samanburðar við það sem gerist í þeim löndum sem við miðum okkur við um lífskjör og almennan aðbúnað, til þess að við getum síðan á grundvelli þeirrar upplýsingaöflunar tekið ákvarðanir um næstu skref um það hvernig við viljum að háskólakerfið okkar þróist. Þar eru stórar og viðamiklar spurningar uppi og við höfum kallað eftir samstarfi og samráði við háskólana sjálfa um greiningu á sóknarfærum og veikleikum í íslenska háskólakerfinu og sú vinna stendur yfir.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, og við erum um það sammála, að menntun, vísindi, rannsóknir eru grundvöllur fyrir allri efnahagsstarfsemi nú þegar, eða stórs hluta hennar, og verður það í vaxandi mæli á næstu árum og áratugum. Lífskjör þjóða munu ráðast af þeim þættinum, hvernig menntakerfi okkar eru skipulögð og vísindastarfseminni fyrir komið. Það er margt ágætt í kerfi okkar en það er líka mjög margt sem við getum og þurfum og verðum að bæta.

Ég held að við séum öll sammála um að við viljum sjá það gerast á næstu árum að framlög til háskólastigsins fari vaxandi. Þó vísa ég til og minni á þann fyrirvara sem settur var af síðustu ríkisstjórn í yfirlýsingu varðandi fjármögnun þessa að hliðsjón verði tekin af hagvexti og stöðu ríkisfjármála. Auðvitað vil ég sem menntamálaráðherra fá sem mest til míns málaflokks en það er nákvæmlega sami fyrirvari núna og verið hefur. En, virðulegi forseti, ég er þeirrar skoðunar að þau framlög sem við getum fengið til þessa málaflokks, þ.e. til háskólastarfseminnar og reyndar til menntamála almennt, muni skila sér mjög fljótt til þjóðarinnar í bættum lífskjörum. En um leið þarf líka að fara fram opin umræða um það hvernig við getum endurskipulagt menntakerfi okkar, t.d. framhaldsskólakerfið og háskólakerfið, (Forseti hringir.) þannig að við nýtum fjármagnið vel og leggjum þar með grunn að öflugra samfélagi.