146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

Klíníkin og áherslumál Bjartrar framtíðar.

[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég er með tvær spurningar sem ég vil beina til hæstv. ráðherra. Svo vel vill til að saman fer í einum og sama manninum ráðherra heilbrigðismála og formaður Bjartrar framtíðar.

Fyrri spurningin snýr að áformum einkasjúkrahússins Klíníkurinnar og þeirri umræðu sem aftur er kviknuð vegna ólíkrar lagatúlkunar landlæknisembættis annars vegar og ráðuneytisins hins vegar, sem er bagalegt og þarf að útkljá. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það nokkru breytt um það sem hæstv. ráðherra gaf út hér á dögunum, að ráðuneytið muni ekki heimila Sjúkratryggingum að gera samning við einkasjúkrahúsið um kaup á sérhæfðri heilbrigðisþjónustu, þ.e. ekki gera samning um að þar verði sett á fót legudeild til allt að fimm daga og farið út í sérhæfðar skurðaðgerðir? Það er mjög mikilvægt að fá þetta á hreint. Er þetta mál að leka einhvern veginn niður eða var eitthvað annað á bak við það en sagt var hér skýrt á dögunum?

Seinni spurningin snýr að þeirri útreið sem ég fæ ekki betur séð en þeir málaflokkar sem Björt framtíð fer með í ríkisstjórn fái í fjármálaáætlun. Því miður er það svo að þegar rýnt er betur í tölur um fjárveitingar samkvæmt áætlun til heilbrigðismála eru þær að uppistöðu til hvað aukningu varðar beint í stofnkostnað byggingar nýs Landspítala og önnur sérgreind verkefni. Þegar það er frá dregið stendur eftir væntanlega niðurskurður upp á milljarða í rekstur.

Svipaða sögu má segja af umhverfisráðuneytinu sem Björt framtíð fer einnig með í ríkisstjórn. Þar er til að mynda um að ræða algerlega ófjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Menn finna þar engar krónur til að planta fleiri trjám og binda meira kolefni eða hraða orkuskiptum í samgöngum eða annað.

Seinni spurningin er því: Ætlar Björt framtíð (Forseti hringir.) að láta bjóða sér þetta? Ætlar hún að láta handjárna sig inni í þessari nýfrjálshyggjufjármálaáætlun til næstu fimm ára?