146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

ívilnanir til United Silicon.

[15:08]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Þann 9. apríl 2014 gerði þáverandi ríkisstjórn ansi magnaðan samning við fyrirtækið United Silicon í Reykjanesbæ. Þessi samningur var í ljósi sögunnar kannski ekkert sérstaklega magnaður fyrir íbúana í Reykjanesbæ, en hann var þeim mun magnaðri fyrir þá sem eiga United Silicon. Þar er nefnilega að finna ýmis verulega safarík ákvæði, svo ég noti það orðalag, um afslætti og ívilnanir af ýmsu tagi. Fram kemur að fyrirtækið skuli greiða 15% tekjuskatt, sem er lægra en gengur og gerist, að almennt tryggingagjald skuli vera 50% lægra en önnur fyrirtæki þurfa að greiða, fasteignaskattur skuli vera 50% lægri, gatnagerðargjald 30% lægra o.s.frv.

Í 7. gr. þessa samnings stendur:

Hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar samkvæmt ákvæðum 5. og 6. gr. samnings þessa skal vera 484,8 milljónir íslenskra. Þetta er, uppfært til dagsins í dag, 506.527 þús. kr., ef eitthvað er að marka reiknivél Hagstofu Íslands.

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hversu háar upphæðir er hér um að ræða hingað til af þeim 506 milljónum sem United Silicon hefur hlotið í ívilnanir?