149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[11:53]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að spyrja út í þemaráðstefnuna sem haldin var á Grænlandi í lok janúar í fyrra og um ferðaþjónustuna í vestnorrænu löndunum og kannski sérstaklega hjá Grænlendingum. Það vakti áhuga minn. Menn eru að huga að því að byggja upp ferðaþjónustu á Grænlandi með uppbyggingu flugvalla og fleiri hluta. Mig langaði að spyrja um það sem snýr að öryggismálum, fjarskiptum og samgöngum almennt sem tengjast þessum málefnum, hvernig umræðan hafi verið um þau mál og sérstaklega öryggismál. Maður lítur til skemmtiferðaskipa sem sigla langt norður í höfum við Scoresbysund. Þar vex mjög traffík af skemmtiferðaskipum, þau stækka og stækka. Ég spyr hv. þingmann hvort þetta hafi eitthvað verið rætt á þemaráðstefnunni sem og það sem snýr að öryggismálum norður af Íslandi og sérstaklega á austurströndinni og svo það sem snertir fjarskipti.

Það er líka áhugavert að sjá tölurnar. Í fínni ársskýrslu Vestnorræna ráðsins kemur fram að í dag koma um 37.000 ferðamenn til Grænlands og Grænlendingar spá og stefna að því að árið 2040 gætu ferðamennirnir verið um 74.000, að þeim fjölgi um helming. Hvernig líta þeir á mikilvægi þessa? Svo er það sá þáttur sem maður hefur heyrt og er minnst á í skýrslunni, að heimafólk á svæðunum virðist ekki starfa í greininni, að þetta séu mikið til erlendar ferðaskrifstofur sem komi með sinn eigin tækjabúnað og sína starfsmenn þannig að efnahagslegu áhrifin skili sér ekki nægilega til viðkomandi samfélags. Var þetta rætt á þemaráðstefnunni? Þetta er líka það sem maður hugsar um hér heima, hvað verður eftir í samfélaginu hjá okkur, verðmætasköpunin sem verður til af t.d. ferðaþjónustu. Þetta vekur áhuga minn.