150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

lýsing verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

451. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um lýsingu verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulögðum markaði.

Með frumvarpinu er lagt til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins 2017/1129 frá 14. júní 2017 um lýsingu sem birta skal þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði og um niðurfellingu á tilskipun 2003/71/EB. Með frumvarpinu er því lagt til að sett verði ný heildarlög um lýsingar verðbréfa sem boðin eru í almennu útboði eða tekin til viðskipta á markaði og að samhliða falli brott tiltekin ákvæði laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Um efni og markmið frumvarpsins að öðru leyti vísast til greinargerðar sem fylgdi frumvarpinu. Þó er rétt að geta þess að í 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við útreikning fjárhæða í lögum sé miðað við opinbert kaupgengi evru. Í umsögn Seðlabankans er bent á að rétt sé að fella út orðið „kaupgengi“ þar sem frá og með 1. apríl nk. birtir Seðlabankinn einungis opinbert miðgengi gjaldmiðla og þá leggst af birting á kaup- og sölugengi gjaldmiðla. Nefndin fellst á þessi sjónarmið og leggur til breytingar í samræmi við þær.

Í umsögn Seðlabankans er vakin athygli á því að skilja megi ákvæði til bráðabirgða svo að staðfestar lýsingar verðbréfa falli niður eftir 21. júlí 2020. Huga þarf betur að lagaskilum og skýra hvernig meta eigi hvort lýsingar sem staðfestar voru á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti uppfylli skilyrði þeirra laga sem gilda eigi um þær eftir 21. júlí 2020. Nefndin fellst á þau sjónarmið og leggur til breytingar á ákvæðinu, í samráði við ráðuneytið.

Aðrar breytingartillögur sem fylgja með á skjali nefndarinnar eru tæknilegs eðlis og til lagfæringar og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Hv. þingmenn Þorsteinn Víglundsson og Bryndís Haraldsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls en undir nefndarálit þetta skrifa sá er hér stendur, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Ásgerður K. Gylfadóttir, Njörður Sigurðsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Smári McCarthy.