150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

241. mál
[17:41]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu, flutta af þekkingu á aðstæðum á þessu fjarlæga svæði og mjög upplýsandi. Mig langar að árétta, vegna ítrekaðra varnaðarorða þingmanns um að ekki ætti að sniðganga vörur, að í umræddri tillögu er að sjálfsögðu aðeins verið að leggja til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það.

Ég get ekki á mér setið, forseti, að spyrja hv. þingmann, af því að þegar ég hlustaði á ágæta lýsingu hans á ástandinu, og hv. þingmaður notaði sjálfur orðið hernám, hvort ástæða sé til að fara öðruvísi að þegar kemur að þessu hernámi en hernámi almennt og á öðrum stöðum, þ.e. þegar ein þjóð fer með valdi á hendur annarri og tekur af henni landsvæði. Er ástæða til að horfa öðrum augum á þetta þarna, sem er akkúrat hugtakið sem hv. þingmaður notaði, hernám? Nær afstaða hv. þingmanns, varðandi það hvernig á að koma fram gagnvart stöðunni þar, yfir slíka stöðu almennt?