150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

241. mál
[17:48]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta mál snýst um að merkja vörur. Það snýst ekki um sniðgöngu. Ég vildi bara koma inn á það vegna þess að stundum er tilhneiging til þess að taka síðan næsta skref í þessum efnum og sniðganga hugnast mér ekki vegna þess að ég veit að hún kemur til með að bitna á Palestínumönnum sjálfum. Það eru fyrst og fremst mín rök í þessu. Hvert einasta starf í Palestínu er gríðarlega mikilvægt og það er ótrúlegt hvað fjölskyldur geta lifað á í raun og veru lágum launum. Þess vegna skiptir hvert einasta starf verulegu máli. Því miður er það bara þannig að Palestínumenn, þeir vinna, þurfa að framfleyta fjölskyldu og þarna eru störf í boði í landtökubyggðunum. Þau eru mun betur borguð en störf innan Palestínu, allt að þrefalt hærri laun en í Palestínu.

Ég sé ekkert að því að merkja vörur í sjálfu sér og að við fylgjum Evrópusambandinu hvað það varðar. Ég held hins vegar að þetta skipti í raun afskaplega litlu máli, sérstaklega hér á landi. En það eru einhverjir sem myndu kannski hætta við að kaupa vöruna ef á henni stæði að hún væri framleidd í landtökubyggð. Þá komum við reyndar aftur að þessu: Þegar við förum út í búð og sjáum vöru sem er merkt þannig að hún sé framleidd í landtökubyggð og við ákveðum að kaupa hana ekki erum við hugsanlega að stuðla að því að þá dragist saman framleiðsla frá þessu tiltekna svæði og í framhaldi komi einhverjir Palestínumenn til með að missa vinnuna? Við vitum það ekki. (Forseti hringir.) Enn og aftur er þetta mjög vandmeðfarið allt saman vegna þess að ef maður ræðir við Palestínumenn sjálfa (Forseti hringir.) sem vinna í landtökubyggðum þá eru þeir fyrst og fremst hamingjusamir (Forseti hringir.) yfir því að hafa starf og geta framfleytt fjölskyldu sinni. Svona er ástandið (Forseti hringir.) á þessu svæði og eitthvað sem við ættum að taka upp við stjórnvöld þar í landi.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir hv. þingmenn á tímamörk.)