150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

skipan nefndar til að meta stöðu og gera tillögur um framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

264. mál
[18:30]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Í fyrsta lagi er það auðvitað þannig að reglan um hlutfallslegan stöðugleika hvað sjávarútvegsmálin varðar er jafn umbreytanleg og margar aðrar reglur Evrópuverksins alls. Í henni einni og sér upplifi ég ekki mikla festu eða ró. En mig langaði til að nota seinna andsvar mitt til að spyrja mjög afmarkaðrar spurningar. Ræða hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur var prýðisgóð en mér þótti hún fara eins og köttur í kringum heitan graut og forðast að segja það sem ég held að hún hugsi, að hún vilji ganga í Evrópusambandið eins og það er.

Hv. þingmaður kom inn á það að henni hugnaðist ekki aukin áhersla á tvíhliða samninga frá því sem nú er. Undir lok ræðunnar kom hún inn á það að hún sæi fyrir sér að dýpka þyrfti þetta samstarf og klára aðildarviðræðurnar. En það er eitt af því góða við kommissara Evrópusambandsins að þeir tala nokkuð skýrt í þessum efnum, að aðlögunarviðræður gangi einmitt út á það fyrst og fremst — auðvitað eru engir tveir aðlögunarsamningar eins — hvernig menn ætla að aðlaga sig regluverki Evrópusambandsins.

Mig langar bara að spyrja þessarar einu spurningar: Vill hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að Ísland gangi í Evrópusambandið eins og það er núna?