150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:41]
Horfa

Flm. (Þorgrímur Sigmundsson) (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans spurningar. Það komu t.d. athugasemdir frá Neytendasamtökunum og eins og kemur fram í greinargerðinni sem fylgir þá miðar þessi tillaga m.a., svo að við höldum okkur við þá skammstöfun, að því að neytendur geti tekið upplýstari ákvörðun og valið í samræmi við sína lífssýn, ef maður getur orðað það sem svo. Þingmaðurinn fór að velta fyrir sér prósentum sem ég náði ekki alveg hvaðan komu og hverjar voru en afleiðan af þeim vangaveltum var að hann ýjaði að því að menn væru að komast á þá skoðun að flutningurinn per se væri ekki eins stór hluti af málinu eins og kannski sumir álitu. En þess vegna stendur hér það sem þingmaðurinn vék að áðan, m.a., hann er engu að síður mjög stór hluti. Það gefur eiginlega augaleið að nýsjálenskt lambalæri, hvort heldur sem það kemur með flugi eða skipi, hefur alla vega flutningsspor og lambalæri frá Öxarfirði sem neytt er á Húsavík hefur augljóslega styttra flutningsspor. Þar fyrir utan er íslenskur landbúnaður núna, ásamt þjóðinni allri, að horfa fram á væntanleg orkuskipti sem mun breyta þessum prósentum. Íslenskur landbúnaður á nefnilega stórkostleg tækifæri í orkuskiptunum. Menn hafa í gegnum tíðina vísað til þess að íslenskur landbúnaður (Forseti hringir.) noti svo og svo mikið af olíu o.s.frv., en hann sér fram á sömu tækifæri og við hin.