152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:43]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þessi sala á Íslandsbanka hefur verið í undirbúningi í þó nokkuð langan tíma, eðlilega. Það er mjög skrýtið að ríkið eigi marga banka. Í alvöru, það er mjög skrýtið, það er í samkeppni við sjálft sig í rauninni. En það skiptir máli hvernig staðið er að sölu heils banka enda höfum við brennt okkur á því á þessari öld, fyrir ekkert rosalega mörgum árum síðan, að selja banka mjög óvarlega. Það sem hefur verið gert á undanförnum árum í undirbúningi þess að selja banka í eigu ríkisins er að hámarka andvirði þeirra. Það hefur verið gert með því t.d. að ríkið krefur bankann um arðsemi og fær arðgreiðslur. Það gerist með því að bankinn fer í starfsemi sem býr til arðsemi, einhver borgar fyrir þá arðsemi og það eru neytendur. Ekkert flóknara en það. Þarna er ríkið að biðja bankann, sem er ákveðinn milliliður í viðskiptagerningum og þess háttar, að búa til eins mikil verðmæti og hægt er. Þau sem borga fyrir það eru m.a. þau sem eru með lán hjá bankanum, með hærri vöxtum af því að þannig fæst meiri arðsemi. Þannig er búið að borga fyrir það að andvirði bankans sé hámarkað. Hvað er svo gert þegar farið er í söluna? Þá er farið í ákveðið frumútboðsferli þar sem keyptir eru inn ráðgjafar um það hvert sé nú andvirði bankans o.s.frv. Þegar það mat er lagt fram þá heyrast fullt af viðvörunarröddum héðan og þaðan um að þetta sé undirverðlagning. Hversu mikil er erfitt að segja í ástandinu miðað við faraldur og þess háttar, en það er tvímælalaust undirverðlagning. Það er áhugavert út af fyrir sig að þá hringi ekki viðvörunarbjöllur.

Bankasýslan kemur til ráðherra og þings og ráðleggur að selja 25% af bankanum og eitt af markmiðum sölunnar er að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum, einnig að stuðla að dreifðu eignarhaldi, en það voru engin skilyrði um dreift eignarhald til framtíðar. Uppsetningin á útboðinu var á þann hátt að það voru í rauninni smærri kaupaðilar sem gátu fengið forgang og það sem slíkt stuðlaði að dreifðu eignarhaldi til að byrja með. En það var nákvæmlega ekkert sem stöðvaði þá í að selja bara strax aftur, sem mjög margir gerðu. Um 25% af upprunalegum kaupendahópi eru horfin og það eru allar líkur á því að hópurinn dragist enn eitthvað saman. Enda verður maður að spyrja hvað dreift eignarhald þýðir. Þýðir það fullt af fjárfestum sem eiga brot af prósenti eða þýðir það átta kjölfestufjárfesta með 10% hver og afgangurinn í dreifðara eignarhald smærri fjárfesta eða erum við að tala um þrjá eða hvað? Hvað þýðir þetta dreifða eignarhald?

Niðurstaðan af útboðinu var að verð hækkaði í kjölfarið. Það sögðu sérfræðingar okkar að væri alveg eðlilegt. Það væri viðbúið að í svona uppboði væri þetta sett upp þannig að andvirði hlutanna gæti hækkað um 5–10%. Það væri merki um vel heppnað útboð. Það gætu bæði seljendur og kaupendur sætt sig mjög vel við, en raunin varð næstum því 60%. Hluturinn sem seldur var á 55 milljarða var orðinn 85 milljarða virði. Þá verður maður að spyrja sig hvort þessir 30 milljarðar séu góður fórnarkostnaður fyrir þá neytendur sem borguðu í því að hækka andvirði bankans út af arðsemiskröfu ríkissjóðs eða út af þessari óljósu kröfu um dreift eignarhald. Það er alveg tvímælalaust, það liggur fyrir að varað var við því að bankinn væri undirverðlagður í frumútboðinu. Það fer ekkert á milli mála. Það þýðir að þegar tilboð bárust og eftirspurnin varð miklu meiri í rauninni en menn þorðu að vona, þá hefðu fleiri viðvörunarbjöllur átt að hringja. Þurfti t.d. að selja 35%? Var ekki hægt að selja bara 25%, gæta smá varfærni upp á möguleikann á því að það væri kannski verið að selja bankann of ódýrt? Hefði meira að segja ekki verið rétt hjá hæstv. ráðherra að segja: Nei, hérna er eitthvað skrýtið í gangi. Við þurfum að passa upp á verðmæti ríkisins og við þurfum greinilega að gera þetta betur. Eftirspurnin ber þess vitni að viðvaranirnar um undirverðlagningu hafi haft eitthvað til síns máls. Sem þær svo sannarlega gerðu.

Þannig að í nokkrum þrepum sölunnar í frumútboðinu mistókst ráðherra að verja andvirði eigna ríkisins og úr varð 30 milljarða kr. tap á sölu. Segjum 25, rúnnum það aðeins niður miðað við 10% hækkun og það sem hægt var að búast við. Fyrir utan að það töpuðust 30 milljarðar í fyrsta útboðinu stendur eftir spurningin um það hvaða kaupendur fengu að kaupa og hverjir ekki. Það er sama spurning og á við núna um nýjustu söluna. Þar komu miklu fleiri að en fengu. Þá verður maður að spyrja um skilyrðin, sérstaklega skilyrðin með tilliti til markmiðanna um að minnka áhættu ríkisins, að efla virka samkeppni, hámarka endurheimtur, stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi, að auka fjárfestingarmöguleika og minnka skuldsetningu. Allt í lagi. Tökum handahófskennt dæmi: Af tveimur sem buðu í, af hverju fékk annar að kaupa en hinn ekki? Það eiga að vera mjög einföld svör við þessu. Þessar spurningar hafa farið í gegnum fjárlaganefnd og það hafa ekki borist svör enn þá um fyrri söluna. Þegar maður sér í seinni sölunni að sumir af þeim sem keyptu voru með stöðu innherja þá verða spurningarnar enn háværari. Efinn um að salan hafi í rauninni verið í háum gæðaflokki verður mikill, augljóslega. Í fyrsta lagi er búið að tapa 30 milljörðum a.m.k., 25–30 milljörðum í fyrstu sölunni, og í öðru lagi kemur það upp að það eru innherjar að kaupa í útboði sem ekki allir fengu að taka þátt í og ekki komust allir að sem vildu.

Þetta eru stórar spurningar sem við þurfum að fá svör við og ég hefði búist við því að svör hefðu átt að vera komin mun fyrr, alla vega um frumútboðið, en ekkert slíkt er aðgengilegt, alla vega ekki miðað við þær spurningar sem við höfum spurt í fjárlaganefnd. Þannig að ég kalla eftir því að við seljum alla vega ekki meira, alla vega ekki núverandi ráðherra, fyrr en svör koma við þessum augljósu spurningum um hvort þetta hafi verið vel gert eða ekki. Mér finnst tiltölulega augljóst að frumútboðið var mjög misheppnað, alla vega með tilliti til markmiðsins um að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldi á bankanum. 25–30 milljarðar eru eitthvað sem við hefðum getað gert ýmislegt gott við, þótt ekki væri nema bara að lækka skuldastöðuna, en ýmis önnur verkefni bíða okkar. Svo varðandi seinni söluna: Af hverju fengu sumir en ekki aðrir að kaupa og hvað voru innherjarnir að gera þarna?