153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ánægjulegt að hafa frú forseta með okkur hér á þessum fundi í dagsbirtu. Mig langaði aðeins að nefna eitt annað atriði varðandi það hvernig við teljum að þetta frumvarp brjóti í bága við mannréttindasáttmála og eins stjórnarskrá Íslands. Og aftur ætla ég að reyna að gera það á eins einfaldan máta og ég get.

Mannréttindahluti stjórnarskrár Íslands byggir að vissu leyti á bæði mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem samþykkt var 10. desember 1948, en einnig á mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur verið lögfestur hér á landi. En strax í 3. gr. mannréttindayfirlýsingarinnar stendur, með leyfi forseta: „Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.“ Þetta hefur oft verið notað til þess að fjalla um það sem á íslensku hefur oft verið kallað friðhelgi einkalífsins, en um það fjallar einmitt 71. gr. stjórnarskrá Íslands, sem byrjar svo, með leyfi forseta: „Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu“ Og það heldur áfram: „Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild.“

En þegar horft er til mannréttindasáttmála Evrópu, sem fer aðeins dýpra heldur mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna, þá stendur þar í 8. gr., með leyfi forseta: „Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.“ Og að einungis megi ganga á þennan rétt þegar um er að ræða þjóðaröryggi, almannaheill eða eitthvað slíkt, til þess að firra glundroða eða glæpum o.s.frv. Með öðrum orðum má ekki ráðast inn í einkalíf fólks nema þjóðaröryggi eða almannaheill liggi við. Dæmi um almannaheill gæti verið ef um einhverjar sóttir eða eitthvað slíkt væri að ræða. Ég veit ekki alveg með það en það er alla vega ekki bara geðþóttaákvörðun dómsmálaráðherra.

Af hverju var ég að fara í gegnum þessar ákveðnu greinar um friðhelgi einkalífsins? Jú, það er vegna þess að í 4. gr. frumvarpsins kemur t.d. fram, með leyfi forseta, að við bætist málsgrein í lögin sem hljómi svo:

„Ef nauðsyn ber til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun útlendings skv. 104. gr. er lögreglu heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði hans til að geta ferðast.“

Þarna getur bara lögreglan farið og krafist þess af lækni að fá læknisvottorð. En munum: Það má ekki framkvæma líkamsrannsóknir nema að gengnum dómsúrskurði. Það á allt í einu gefa lögreglunni bara vald til hvers sem er. Ef við byrjum að gefa lögreglunni vald til að gera þetta við fólk á flótta, hvar biður lögreglan næst um að fá aðgang? Að öllum tölvunum mínum, að öllu án þess að fá nokkurn tímann dómsúrskurð eða neitt slíkt?

Frú forseti. Við verðum við að passa að um leið og við skröpum af mannréttindunum og skröpum af þeim réttindum sem við erum varin með með stjórnarskrá þá er einfaldlega haldið áfram og áfram.