Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef verið að fara yfir umsögn Rauða krossins á Íslandi, það er síðasta umsögnin sem ég hef verið með útdrátt úr. Ég var að fara yfir þjónustuskerðinguna í 6. gr. og er kominn yfir í það hvernig Útlendingastofnun hefur ekki verið að meta einstaklinga sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Það er verið að bæta við öðrum stað þar sem einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu missa ekki réttindi, en Útlendingastofnun er búin að vera að klúðra því hvort eð er. Síðan kemur 7. gr. sem er sérstök málsmeðferð vegna endurtekinna umsókna, eitthvað sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hefur dálæti á, með öfugum formerkjum.

Þarna segir Rauði krossinn að verið sé að veita þrengri rétt en áskilið er í 24. gr. stjórnsýslulaga sem er lágmarksréttur innan stjórnsýslunnar. Í 24. gr. er ekki krafa um að sýnilega auknar líkur séu á að fallist verði á beiðni viðkomandi, það þurfi bara að taka við gögnunum og meta þau í heild sinni með tilliti til samverkandi áhrifa á þau gögn sem þegar eru til í málinu. Það getur vissulega haft áhrif en hér á bara að horfa á þau gögn sem verið er að leggja til og meta hvort þau gögn auki sýnilega líkurnar á því að niðurstaðan breytist eitthvað. Þetta er svona gildismatsspurning eða kannski möguleg geðþóttaákvörðun fyrir stjórnvöld sem er alltaf mjög varhugaverð og er þá einmitt kæranleg í kjölfarið o.s.frv. sem býr aftur til pappírsvinnu annars staðar í kerfinu og skilvirknin fýkur út um gluggann. Þetta er því mjög áhugaverð grein og ég skil vel af hverju hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hefur áhuga á henni því að hún fer svo víða.

Einnig er gerð athugasemd við b-lið 8. gr. og tiltölulega víðtæk athugasemd, nær yfir í b- og c-liðinn. Ég útskýri þetta aðeins. Það er talað um fyrsta griðland, þ.e. að gert er ráð fyrir því að hægt sé að synja umsækjanda um efnismeðferð ef hann hefur náin fjölskyldutengsl við ríki sem hann hefur jafnvel aldrei komið til. Þetta er í raun ákveðin nýsköpun, ef hægt er að orða það þannig, og ekki á mjög jákvæðan hátt. Vert er að nefna að ekki eru neinir viðtökusamningar í gildi við önnur ríki en þau sem eru aðilar að Dyflinnarreglugerðinni. Og við þurfum að skilja hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að Ísland er búið að koma sér í samskipti við önnur lönd um að taka á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd eftir að þeim hefur verið hafnað hér. Við erum með skyldu á okkur, samkvæmt mannréttindasáttmálanum, til að gera ekkert „non-refoulement“. Við megum ekki senda þessa umsóknaraðila, þó að við séum búin að hafna þeim, til einhverra landa þar sem gæti verið brotið á þeim aftur þar sem við gætum lent í þeirri viðkvæmu stöðu að það væri okkur að kenna að setja viðkomandi í þær aðstæður. Þau lönd sem við erum ekki með samskipti við, önnur ríki utan Dyflinnarreglugerðarinnar — við erum ekki með nein samskipti við þau og það yrðu erfið samskipti sem þyrfti alveg örugglega að taka upp út frá einstaklingsbundnum tilvikum. Það er kannski hægt að gera einhverja samninga við eitthvert ríki utan Dyflinnarreglugerðarinnar um viðtöku eins einstaklings sem myndi tékka í öll boxin, þ.e. að hann væri öruggur. En næsti einstaklingur væri það kannski ekki vegna þess að fólk sækir um alþjóðlega vernd af svo flóknum ástæðum, og þá þyrfti í raun að fara í alla þá vinnu aftur, það yrði ekki hægt að endurnýta neina vinnu. (Forseti hringir.) — Ég bið virðulegan forseta um að setja mig á mælendaskrá aftur, ég er ekki alveg búinn að klára þessa grein.