Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Það er svo mikið rugl í þessu frumvarpi og svo margt sem er á milli línanna að ég fer ekki einu sinni yfir það sem ég ætla mér að fara yfir þegar ég kem hingað upp og fer alltaf að röfla um eitthvað annað af því að það eru bara endalausir angar af þessu frumvarpi sem eru bæði lögfræðilega vondir og mannfjandsamlegir, ég ætla bara að segja það.

Ég ætla áfram að fara yfir umsögn Flóttamannastofnunarinnar við 7. gr., gerandi ráð fyrir því að við séum að tala um endurtekna umsókn sem er augljóslega ekki tilgangurinn með ákvæðinu. Tilgangurinn með ákvæðinu er að koma í veg fyrir beiðnir um endurupptöku, sem er annar hlutur, og því er mjög augljóslega, eins og ég sýndi fram á hér áðan og kemur reyndar fram í frumvarpinu á milli línanna, beint gegn umsóknum fólks sem hefur fengið vernd í öðru ríki. Þó eru lögin, og ekki er lögð til breyting á því, skýr um það að fólk í þeirri stöðu eigi heimild til þess að fá áheyrn hér á landi. Það er ekki afnumið. Vinstri græn fengu það tekið út úr frumvarpinu en málsmeðferðina á að eyðileggja með öðrum og mun verri hætti, af því að fólk áttar sig ekki á því hvað er í gangi þar. Með leyfi forseta:

„Að mati Flóttamannastofnunarinnar er aðeins réttlætanlegt að meðhöndla umsókn sem endurtekna umsókn ef fyrri umsóknin var tekin til efnislegrar meðferðar, þar sem farið var eftir öllum tilheyrandi réttarfarsreglum.“

Ég ætla að stoppa hérna aftur. Þarna er strax búið að eyðileggja þetta fyrir frumvarpshöfundum, fyrir hæstv. dómsmálaráðherra og meiri hlutanum hér á þingi, þar sem þessu ákvæði er akkúrat beint gegn fólki sem hefur verið synjað um efnislega meðferð umsókna sinna. Það að Flóttamannastofnunin skuli gera kröfu um að það megi bara beita svona ákvæði á umsóknir sem hafa fengið efnislega meðferð gerir þetta tilgangslaust, vegna þess að viti menn; endurteknar umsóknir sem fá efnislega meðferð eru ekki vandamál hér á landi.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Margar gildar ástæður geta verið fyrir því að umsækjandi leggur fram endurtekna umsókn sem þeir sem ákvörðunina taka þurfa að meta áður en umsókninni er vísað frá.“

Ég staldra aðeins við hér. Hver eru fyrstu orðin í ákvæðinu sem lagt er til af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra og meiri hlutans hér á þingi? Með leyfi forseta: „Endurtekinni umsókn skal vísað frá.“ Svo eru einhverjar undantekningar á því.

Flóttamannastofnun líst ekkert á þetta og áfram segir, með leyfi forseta:

„Meðal annars getur verið að breytingar hafi orðið á aðstæðum í upprunalandinu, að annmarkar eða ágallar hafi verið á fyrri málsmeðferð sem komu í veg fyrir fullnægjandi skoðun,“ — ótrúlegt en satt — „,áföll eða aðrar hömlur sem komu í veg fyrir ítarlegan vitnisburð frá umsækjandanum í fyrri málsmeðferð eða þá að umsækjandanum hafi áskotnast fleiri sönnunargögn.

Í grundvallaratriðum er Flóttamannastofnun samþykk því að farið sé yfir það fyrirfram í tilfelli endurtekinna umsókna hvort ný atriði séu til staðar eða hafi verið sett fram sem kalli eftir efnislegri meðferð á umsókninni. Slík nálgun gerir það mögulegt að koma fljótlega auga á það þegar endurteknar umsóknir uppfylla ekki þessi skilyrði. Flóttamannastofnunin hefur þó áhyggjur af þeirri hækkun á þröskuldi sönnunargagna sem lögð er til fyrir endurteknar umsóknir. Að mati Flóttamannastofnunar ætti ekki að meta það í fyrirframskoðun hvort slík atriði feli í sér „verulega auknar líkur“ á því að umsækjandinn hljóti alþjóðlega vernd. Taka ber umsókn til nýrrar efnislegrar meðferðar til að ákvarða hvort umsækjandinn eigi rétt á alþjóðlegri vernd.“

Þessu svaraði dómsmálaráðuneytið með bréfi þar sem allsherjar- og menntamálanefnd óskaði eftir því að fá afstöðu dómsmálaráðuneytisins til umsagna aðilanna, með leyfi forseta:

„Í umsögninni kemur fram sú afstaða UNHCR að umsókn skuli aðeins teljast endurtekin umsókn þegar leyst var úr fyrri umsókn á efnislegum grundvelli og að fjarlægja skuli skilyrði um „sýnilega auknar líkur“ úr ákvæði 7. gr. frumvarpsins. Við útfærslu hugtaksins endurtekin umsókn og málsmeðferð slíkra umsókna í 7. gr. var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/32/EB höfð til hliðsjónar,“ — ég endurtek: höfð til hliðsjónar — „m.a. 40. gr. tilskipunarinnar.“

Nú er ég að falla á tíma. Ég ætla að halda áfram þessum upplestri í næstu ræðu minni. Ég vil taka fram að í svari ráðuneytisins er skýrt að þessum ákvæðum er beint gegn umsóknum frá fólki sem hefur fengið vernd í öðru Evrópuríki, þó að lögin séu skýr um það að þau eigi rétt á áheyrn hér á landi og því er ekki verið að breyta. — Ég óska eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá.