Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég er hér að ræða um 8. gr. frumvarpsins og ætla að byrja á a-liðnum. — Nei, fyrirgefið, b-liðnum, a-liðurinn er í lögunum nú þegar og í rauninni bara verið að slíta hann frá b-liðnum sem er hins vegar nýr. Með leyfi forseta:

„Í b-lið 8. gr. frumvarpsins er lagt til að nýr d-liður 1. mgr. 36. gr. laganna mæli fyrir um regluna um fyrsta griðland, þ.e. að umsókn um alþjóðlega vernd skuli afgreidd í fyrsta ríki sem umsækjandi kemur til og getur veitt honum vernd. Ákvæðinu um fyrsta griðland í gildandi lögum hefur ekki verið beitt að fullu þar sem það er talið óskýrt. Með frumvarpi þessu er því lagt til að ákvæðið mæli fyrir um þau tilvik þegar umsækjandi um alþjóðlega vernd hefur slík tengsl við annað ríki að sanngjarnt og eðlilegt geti talist að hann dvelji þar. Í orðalagi ákvæðisins koma fram skilyrði þess að ákvæðið eigi við, þar á meðal að stjórnvöld hafi gengið úr skugga um að verði umsækjandi sendur til ríkisins þurfi hann ekki að óttast ofsóknir eða að verða sendur áfram til heimalands síns í andstöðu við meginregluna um að vísa fólki ekki brott þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Við mat á því hvað telst sanngjarnt og eðlilegt skal m.a. líta til lengdar dvalar, fjölskyldutengsla og möguleika viðkomandi til að dveljast eða öðlast rétt til dvalar í ríkinu. Getur ákvæðið þannig einnig komið til skoðunar þegar umsækjandi hefur ekki dvalið í ríkinu en hefur náin fjölskyldutengsl við það, svo sem þegar maki umsækjandans er ríkisborgari þess ríkis og getur á þeim grundvelli fengið dvalarleyfi. Við ákvarðanir um synjun efnismeðferðar samkvæmt þessum lið skal höfð hliðsjón af 38. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/32/ESB um lágmarkskröfur til málsmeðferðar í aðildarríkjum við veitingu og afturköllun á stöðu flóttamanns. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi ríki sé aðili að flóttamannasamningnum en nauðsynlegt er að þau réttindi sem mælt er fyrir um í honum séu virt.“

Ef þetta væri próf sem ég væri að fara yfir væru svona fjórar, fimm villur og ég ætla að fara yfir þær núna. Ákvæðið kveður sem sagt á um heimild Útlendingastofnunar til að synja umsækjanda um alþjóðlega vernd um efnismeðferð umsóknarinnar og vísa honum til ríkis þar sem Útlendingastofnun finnst sanngjarnt og eðlilegt að viðkomandi sæki um vernd. Þetta er fyrsta villan í greinargerðinni sem lýsir kannski — ég veit ekki hvort þetta er vanþekking frumvarpshöfunda eða ásetningur. Ég held að hvorugt sé neitt sérstaklega gott mál en annað hvort er það, vegna þess að í greinargerðinni er sagt að þarna sé verið að mæla fyrir um regluna um fyrsta griðland. Þetta er rangt. Reglan um fyrsta griðland í alþjóðarétti, þjóðarrétti, snýst um að hægt sé að krefja það ríki sem einstaklingur kemur fyrst til og er öruggur í á sínum flótta um að veita viðkomandi vernd. Það er ekki það sem er verið að kveða á um í þessari tillögu. Það sem er verið að tala um í þessari tillögu er annað hugtak sem kallast þriðja ríki, svokallað þriðja öruggt ríki, „third safe country“ á ensku, með leyfi forseta. Hver er munurinn? Hann er sá að þegar flóttamaður er kominn inn fyrir landamæri ríkis þá samkvæmt flóttamannasamningnum, og hægt að halda því fram að það gildi líka um ríki sem eru ekki aðilar að flóttamannasamningnum, á viðkomandi rétt á vernd ríkisins. Það sem er verið að tala um í þessu ákvæði er sem sagt þetta þriðja örugga ríki. Það hugtak, sem er í rauninni engin regla heldur aðferð sem beitt er af ríkjum heims til að firra sig ábyrgð eins og íslensk stjórnvöld eru að gera þarna, gengur ekki út á það að viðkomandi hafi komið þangað eða sé kominn til ríkisins sem á að vísa honum til baka til. Eins og kemur fram í ákvæðinu er ekki gerð krafa um að umsækjandi hafi nokkurn tíma komið þangað og ekki gerð krafa um að hann hafi einu sinni heimild til komu eða dvalar í ríkinu. — Enn og aftur er ég fallin á tíma þegar ég er rétt að byrja og óska eftir því, forseti, að verða sett aftur á mælendaskrá.