Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Áfram held ég yfirferð yfir frumvarp um mannréttindasáttmála Evrópu, með leyfi forseta:

„Hverjir njóta réttindanna? Eins og kemur fram í 1. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis skuldbinda aðildarríkin að mannréttindasáttmálanum sig til að tryggja þessi réttindi hverjum þeim sem dvelst innan yfirráðasvæðis þeirra. Réttindin eru ekki aðeins tryggð þegnum ríkjanna, heldur öllum, sem dveljast innan þeirra og án tillits til þjóðernis, svo sem tekið er fram í 14. gr. samningsins, en í 16. gr. hans er þó heimilað að takmarka frelsi útlendinga til pólitískrar starfsemi.“

Undir fyrirsögninni Skuldbindingar og afmörkun hugtaks segir:

„Til að efna skuldbindingar sínar, sem fylgja aðild að mannréttindasáttmálanum, verða ríkin, sem í hlut eiga, að haga löggjöf, stjórn- og dómsýslu sinni þannig að ofangreind réttindi séu virt. Í vel flestum atriðum eru þessi réttindi þess eðlis að þau beinast að ríkjunum sjálfum sem bera þá skyldurnar sem svara til réttindanna. Réttindin eru aðeins í undantekningartilvikum þess efnis að skyldur falli á einstaklinga eða samtök þeirra. Í raun má því segja að þegar rætt er um mannréttindi samkvæmt þessum sáttmála sé í meginatriðum átt við frelsisréttindi einstaklinganna til að haga lífi sínu, skoðunum og athöfnum að eigin vild án þess að eiga á hættu afskipti eða íhlutun ríkisins. Þessi afmörkun á hugtakinu mannréttindi eða eðli þeirra er í samræmi við viðtekinn skilning á því.

Við samanburð á ákvæðum mannréttindasáttmálans og ákvæðum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 kemur í ljós að ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar eru víðtækari. Þar er hins vegar að finna ákvæði um öll sömu mannréttindi og fjallað er um í mannréttindasáttmála Evrópu. Á mannréttindasáttmálanum og mannréttindayfirlýsingunni er sá meginmunur að sáttmálinn er samningur sem bindur aðildarríkin að þjóðarétti. Mannréttindayfirlýsingin er ekki skuldbindandi þjóðréttarsamningur, en þar er að finna stefnumið til leiðsagnar fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Áhrif mannréttindayfirlýsingarinnar hafa verið mikil og á henni hefur verið byggt við gerð nýrra mannréttindasáttmála. Enda þótt mannréttindayfirlýsingunni sé þannig ekki ætlað að hafa bein réttaráhrif að þjóðarétti, leikur ekki vafi á að hún gegnir mikilvægu hlutverki og vegna þeirrar viðurkenningar, sem hún hefur hlotið, hefur því verið haldið fram að ákvæði hennar hafi smá saman verið að breytast í reglur sem hafi gildi að þjóðarétti.

Eitt helsta markmiðið með gerð mannréttindasáttmála Evrópu var einmitt að leggja lagalegar skyldur á aðildarríki að Evrópuráðinu til að virða og tryggja tiltekin mannréttindi, skyldur sem reyndist ekki unnt að koma á meðal Sameinuðu þjóðanna á fimmta áratug aldarinnar. Mannréttindasáttmálinn er að auki frábrugðinn flestum þjóðréttarsamningum að því leyti að hann leggur ekki aðeins lagaskyldu á aðildarríki gagnvart öðrum aðildarríkjum til að tryggja tiltekin mannréttindi, heldur er sagt í honum að hver sá, sem dvelst innan yfirráðasvæðis aðildarríkis, geti átt kost á að leita úrræða á alþjóðlegum vettvangi á grundvelli sáttmálans ef hann telur ríkið brjóta á sér gegn ákvæðum sáttmálans. Að þessu síðarnefnda leyti er mannréttindasáttmálinn verulega frábrugðinn flestum öðrum þjóðréttarsamningum því að hann veitir ekki aðeins samningsríkjunum, heldur einnig einstaklingum, aðgang að alþjóðlegum stofnunum til að fá leyst úr því hvort samningsríki hafi vanefnt skyldur sínar. Þess verður þó að geta að líkar leiðir hafa verið farnar í fáeinum yngri samningum um mannréttindi. Í valfrjálsri bókun við Alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi er kveðið á um rétt einstaklinga til að senda mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna erindi út af skerðingu þeirra réttinda sem lýst er í samningnum. Nefndin kannar erindin og kemur síðan sjónarmiðum sínum á framfæri við ríkið sem í hlut á og einstaklinginn. Ísland er eitt þeirra ríkja sem hefur skuldbundið sig til að hlíta kærum einstaklinga á hendur sér samkvæmt þessari bókun.“ — Ef virðulegur forseti gæti bætt mér aftur á mælendaskrá, svo ég geti haldið áfram, þá væri það vel þegið.