Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég held áfram að vísa í greinargerð með frumvarpi um mannréttindasáttmála Evrópu, með leyfi forseta, kafla um Mannréttindadómstólinn:

„Í IV. kafla samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis eru reglur um skipan Mannréttindadómstóls Evrópu og meðferð mála fyrir honum. Samkvæmt 38. og 39. gr. samningsins eru dómarar við dómstólinn jafnmargir og aðildarríkin að Evrópuráðinu, en þing ráðsins kýs þá til níu ára í senn úr hópi þriggja manna sem hvert ríki tilnefnir fyrir sitt leyti. Dómstóllinn starfar í deildum sem níu dómarar skipa hverju sinni, en dómarinn, sem hefur verið kosinn fyrir aðildarríkið sem mál beinist að, situr alltaf í dómi í viðkomandi máli, auk forseta eða varaforseta dómsins og sjö annarra dómara sem eru valdir með hlutkesti. Fyrir dómstólinn verða lögð mál á hendur aðildarríki að mannréttindasáttmálanum svo framarlega sem ríkið hefur lýst sig bundið af lögsögu dómstólsins samkvæmt fyrirmælum 46. gr. samningsins, en slíkar yfirlýsingar hafa komið fram frá sömu ríkjum og hafa lýst yfir viðurkenningu á heimild mannréttindanefndarinnar til að fjalla um kærur einstaklinga og samtaka á hendur sér. Fyrir mannréttindadómstólnum er mannréttindanefndin eða eftir atvikum aðildarríki að sáttmálanum, sem hefur lagt mál fyrir hann, sækjandi máls. Ef mannréttindanefndin sækir fyrir dómstólnum mál, sem einstaklingur eða samtök þeirra hafa kært til hennar, gefst kærandanum kostur á að taka þátt í meðferð málsins fyrir dómstólnum, en aðild að málinu á þó kærandinn ekki í eiginlegum skilningi á þessum vettvangi. Fyrir mannréttindadómstólnum er unnt að ljúka máli með sátt með samþykki hans, en að öðrum kosti fer þar fram gagnaöflun og málflutningur og kveður dómstóllinn síðan upp rökstuddan dóm sem er fullnaðarúrlausn um sakarefnið eins og kemur fram í 51. og 52. gr. samningsins. Í dómi mannréttindadómstólsins er eingöngu kveðið á um það hvort hlutaðeigandi ríki teljist hafa brotið gegn mannréttindasáttmálanum, en hafi þess verið krafist getur dómstóllinn enn fremur dæmt þeim einstaklingi eða samtökum, sem brot á sáttmálanum hefur bitnað á, bætur úr hendi ríkisins skv. 50. gr. samningsins.

Dómur mannréttindadómstólsins hnekkir þannig ekki dómi eða annarri úrlausn sem hefur fengist um kæruefnið í aðildarríki að mannréttindasáttmálanum, heldur stendur slík úrlausn óhögguð. Mannréttindadómstóllinn og aðrar stofnanir, sem fjalla um kæruefni samkvæmt samningnum um verndun mannréttinda og mannfrelsis, eru því ekki í neinum skilningi áfrýjunarstig í máli og endurskoða ekki dómsúrlausn frá aðildarríki, heldur er aðeins leyst úr því á þessum vettvangi hvort aðildarríki hafi brotið þjóðréttarskuldbindingu sína um að tryggja viðkomandi mannréttindi og eftir atvikum hvort ríkið sé bótaskylt af því tilefni. Mannréttindadómstóll Evrópu tók fyrst til starfa í ársbyrjun 1959. Frá þeim tíma og til loka árs 1990 höfðu alls verið lögð 252 mál fyrir hann. Þar af hafði mannréttindanefndin lagt fyrir 251 mál, en í einu tilviki hefur aðildarríki lagt fyrir dómstólinn mál á hendur öðru aðildarríki að mannréttindasáttmálanum. Af þessum heildarfjölda mála hafði 189 verið lokið í ársbyrjun 1991. 12 þessara mála höfðu verið felld niður, en efnisdómur hins vegar gengið í 177 málum. Í 47 tilvikum varð niðurstaðan sú að hlutaðeigandi ríki hefði ekki brotið gegn mannréttindasáttmálanum, en brot voru hins vegar talin hafa verið framin í 130 málum.“

Við skulum gera okkur grein fyrir því að þrátt fyrir að Ísland sé búið að kvitta undir mannréttindasáttmála Evrópu og öll önnur ríki þar líka, þá getur samt gerst að þau brjóti hann. Þar geta einstaklingar og samtök, eins og segir hérna, leitað réttar síns. Hér í þessu frumvarpi er ríkisstjórnin að reyna að koma inn breytingum í útlendingalög sem auka verulega áhættuna á að enn frekar sé verið að brjóta á (Forseti hringir.) mannréttindum útlendinga, umsækjendum um alþjóðlega vernd, ef þetta mál klárast. — Ég bið forseta vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.