132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Lög um fæðingarorlof – undirbúningur að fjölmiðlafrumvarpi.

[12:18]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs, ekki til að taka þriðja málið upp á dagskrá heldur til að tala um svör hæstv. félagsmálaráðherra. Við sáum fréttir í vikunni á Stöð 2 eða NFS um aðstæður foreldra barna, námsmanna sem stunda nám í Danmörku í þessu tilfelli. Þetta voru auðvitað mjög sláandi dæmi. Eins og hefur komið fram í umræðunum er mjög einkennilegt að námsmenn erlendis þurfi að fara í eitthvert lögheimilisflakk til að eiga rétt á fæðingarorlofi.

Í máli hæstv. félagsmálaráðherra kom hins vegar fram að þetta var með ráðum gert fyrir einu ári síðan að afnema þennan styrk til maka námsmanna erlendis. Það er auðvitað mjög einkennilegt og á svörunum áðan fannst mér ekki koma nógu skýrt í ljós, andstætt því sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði, að fullur vilji væri til að breyta þessu. Það er vitnað í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar o.s.frv.

Hins vegar er augljóst að þetta er afar ósanngjarnt og í raun og veru andstætt þeim ágætu fæðingarorlofslögum sem samþykkt voru á Alþingi. Þess vegna held ég að menn ættu að taka sig á uppi í félagsmálaráðuneyti og breyta þessu hið snarasta og yrðu þeir þá menn að meiri mundi ég halda.