136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vandi smærri fjármálafyrirtækja.

[13:49]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka mál smærri fjármálafyrirtækja og sparisjóðanna hér upp. Ég vil líka fagna því sem fram kom í máli hæstv. viðskiptaráðherra að nú væri verið að setja verklagsreglur til að ríkisstjórnin geti komið sparisjóðum til aðstoðar til að gera þá áfram virka í þjónustu fjármálalífs á Íslandi.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ítrekað flutt frumvarp á Alþingi einmitt um það hvernig styrkja megi og standa vörð um sparisjóðina. Það er alveg hárrétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að fyrir nokkrum árum var lagaumhverfi sparisjóðanna breytt til að opna á það að þeir gætu einkavætt sig með auðveldari hætti. Þar með var vegið að hinum félagslega grunni sparisjóðanna sem þeir eru byggðir á.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um leið og ég fagna því að styrkja á stöðu sparisjóðanna og koma með fjármagn af hálfu hins opinbera inn í þá — og í því sambandi legg ég áherslu á sjálfstæði hinna minni sparisjóða um allt land og að það eigi að tryggja möguleika þeirra til samstarfs — hvort hæstv. ráðherra muni ekki líka fylgja því eftir að settar verði þær siðferðilegu kröfur á sparisjóðina að þeir verði færðir í sitt upprunalega félagslega form og að komið verði í veg fyrir það sem við heyrum að sparisjóðir sem hafa verið nefndir og eins og hæstv. ráðherra nefndi, hvort sem það er SPRON, Byr eða Sparisjóður Keflavíkur eða aðrir, liggi undir ámæli um að þeir hafi stundað fjármálastarfsemi sem alls ekkert er í neinum takti við grunnhugsjónir sparisjóðanna. Ég tel mjög mikilvægt að við tryggjum stöðu sparisjóðanna og færum þá aftur í sitt félagslega horf og treystum stöðu þeirra til framtíðar með þeim hætti.