136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

aukatekjur ríkissjóðs.

226. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var þó nokkuð mikið rætt, eða þannig. Ég vil í sambandi við þetta benda á að kostnaðurinn er aðallega mannakostnaður, launakostnaður. Fólk er almennt með svona 300–400 þús. kr. á mánuði, klukkutíminn fer þá á 3–4 þús. kall. Ef menn lenda sjaldan í því að þurfa að finna svona skjal í t.d. gagnagrunni og þurfa að gera það kannski einu sinni á klukkutíma eða einu sinni á dag getur farið dágóður tími í það, setja sig í gang og finna hvar skjalið er o.s.frv. Miðað við það að tíminn kosti 4 þús. kall er það fljótt að koma.

Þegar tekið er ljósrit fellur til ákveðinn kostnaður, pappír, prentun, afskrift tækja og slíkt þannig að það er líka kostnaður umfram það sem tekið er á rafrænu formi. Þegar um er að ræða rafrænt form er það rétt hjá hv. þingmanni að þegar búið er að taka ljósrit af því og skanna það inn má segja að sá kostnaður sé ekki lengur til staðar en það er mannakostnaður við að skanna inn skjalið þó að það sé enginn annar kostnaður í rauninni nema þá afskriftir af tækjum og slíku. Samanlagt er töluvert flókið að finna út úr þessu, og ef við ætlum að fara að sundurgreina það sem er búið að skanna og það sem ekki var búið að skanna þyrftu menn að vita hvort áður var búið að skanna inn skjalið eða hvort það er ný skönnun og hafa sundurliðun.

Það sem er kannski hvað dýrast er það að senda út reikning ef það skyldi vera gert. Það kostar heilmikið að halda utan um reikning í bókhaldi, sennilega 2–3 þús. kr., halda utan um hann, innheimta hann, ef hann greiðist ekki að senda hann til innheimtufyrirtækis o.s.frv. Það eru mörg sjónarmið í þessu og ekkert einfalt. Það sem ég held að sé mikilvægast í þessu er að reglurnar séu tiltölulega einfaldar og skýrar. Ef það er mismunur á milli sveitarfélaga og ríkisins eiga menn bara að laga það öðru hvorum megin og hér erum við að setja lög þannig að reglugerðin hlýtur þá að fara eftir því.