143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[17:00]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli. Ég vil taka fram í upphafi vegna þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað meðal annars um landsskipulagsáætlun að ég var og hef alla tíð verið andsnúin henni, svo það sé sagt.

Ég er hins vegar hlynnt flugvelli í Vatnsmýrinni. Það á bara ekkert skylt við þetta frumvarp. Þar liggur kannski hundurinn grafinn, vegna þess að hér er gerð tilraun til að taka skipulagsmál og skipulagsvaldið af sveitarfélaginu. Ég starfaði sem sveitarstjórnarmaður og ekki aðeins þess vegna heldur vegna þess að mér finnst að sveitarfélögin eigi að fá aukin réttindi frekar en að af þeim séu tekin réttindi er ég andsnúin því að færa skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli, sem væntanlega er þá flugvöllurinn í Vatnsmýri, til þingsins.

Mér finnst ekki alveg tækt að þegar við erum ósátt um hvort flugvöllurinn eigi að vera í Vatnsmýrinni eða flytjast eitthvert annað komum við fram með lög, með fullri virðingu fyrir hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni sem gerði mjög vel grein fyrir ástæðum sínum fyrir því að leggja fram frumvarpið, vegna þess að hann er hlynntur flugvellinum í Vatnsmýrinni. Ég er andsnúin því og finnst við ekki geta komið með lög eingöngu vegna þess að við erum ósátt og viljum breyta lögunum í þá veru að okkar vilji verði að veruleika.

Í því ljósi finnst mér líka sérstök sú tillaga sem heyrst hefur að fara eigi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um veru flugvallarins í Vatnsmýrinni. Á Alþingi að efna til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu á meðan skipulagsvaldið er í Reykjavíkurborg? Við getum komið með skoðanakannanir og undirskriftalista. Það sem gert hefur verið í þeim efnum sýnir ótvírætt stuðning stórs hluta Reykvíkinga sjálfra sem og landsmanna við veru flugvallarins í Vatnsmýrinni.

Hins vegar er það þannig með verksvið skipulagsmála að þau eru og ættu öll að mínu viti, ekki bara stundum heldur öll, að vera í höndum sveitarfélags. Við förum ferlið úr svæðaskipulagi í aðalskipulag í deiliskipulag. Bæði svæðaskipulagið sem og aðalskipulagið þarfnast samþykkis Skipulagsstofnunar. Ef ósætti ríkir á milli Skipulagsstofnunar og sveitarfélagsins er það úrskurður ráðherra sem ræður för.

Virðulegur forseti. Mig langar líka að spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson, og vænti þess að hann taki til máls í lok máls okkar hinna sem tjáum okkur um málið, um 4. gr. Þar er kveðið á um framkvæmd skipulagsmála á Reykjavíkurflugvelli. Fari svo að Alþingi Íslendinga taki skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg með lagasetningu, og þá þvingaðri lagasetningu, er þar engu að síður gert ráð fyrir að Alþingi beri ábyrgð á aðalskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar sem skipuð verði, og gert er grein fyrir skipun í hana, vinni í umboði Alþingis að vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags og síðan væntanlega deiliskipulags þegar þar að kemur, því að allt aðalskipulag þarfnast líka deiliskipulags.

Þegar aðalskipulag og deiliskipulag er annars vegar geta allir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta komið með athugasemdir við skipulagið. Þá er það væntanlega skipulags- og byggingarnefnd flugvallarins sem taka á afstöðu til þeirra athugasemda sem koma fram. Síðan fylgja athugasemdirnar líklega með í aðalskipulagi sem fer til Skipulagsstofnunar sem á að staðfesta aðalskipulagið eður ei. Ef það er ágreiningur á milli Skipulagsstofnunar og skipulags- og byggingarnefndarinnar, vegna þess að það er ekkert annað umboð, fer skipulagið, hvort sem það er aðalskipulag eða deiliskipulag, til úrskurðar ráðherra. (Gripið fram í: Nei, úrskurðarnefnd.) (Gripið fram í: Nei, nei.) Eða í úrskurðarnefnd og síðan hugsanlega til úrskurðar ráðherra sem endanlega kveður upp og setur stimpil. Er það ekki rétt, hv. þm. Óttarr Proppé? (ÓP: Passar.)Þá erum við komin á svolítið sérstakan stað; þegar skipulagsnefnd einstaks svæðis er umsagnaraðilinn í öllu ferlinu, tekur við öllum umsögnum, vinnur úr þeim og skilar þeim og skilar svörum. Það þykir mér ögn sérstakt þar sem ég þekki þokkalega vinnslu við skipulagsmál.

Svo er hitt sem kveðið er á um og á að gera að lögum og það er að skikka skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar til þess að starfa með skipulags- og byggingarnefnd flugvallarins. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar sem verið er að taka skipulagsvaldi af á engu að síður að vinna með nefndinni, hafa umsjón með skipulagsgerðinni eftir … (Gripið fram í.)Það stendur, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, orðrétt í 4. gr., með leyfi forseta:

„Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar starfar með skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkurflugvallar. Hann hefur umsjón með skipulagsgerð, eftirlit með framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum og annast að öðru leyti þau verkefni sem honum eru falin af nefndinni og mælt er fyrir um í skipulagslögum, nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúi situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt.“

Mér þykir það sérkennileg ráðstöfun í 4. gr. að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg en binda jafnframt í lög hvernig borgin sjálf á að vinna að verkefninu.

Virðulegur forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt: Ég er hlynnt flugvelli í Vatnsmýrinni en ég er andvíg þessu frumvarpi.