143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

277. mál
[18:21]
Horfa

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er misskilningur hjá hv. þingmanni. Ég vil vissulega koma í veg fyrir að tiltekinn auðmaður kaupi tiltekna jörð á Íslandi sem er Grímsstaðir á Fjöllum. Eins og hv. þingmaður gat um flutti ég þingmál þess efnis og var ekkert einn um það. Um 150 einstaklingar úr öllum stjórnmálaflokkum á öllum aldri skrifa undir þá áskorun til Alþingis Íslendinga, um að við gerum það. Ég er ekki einn á báti þar, alls ekki, síður en svo. Það snýr að þessari tilteknu jörð. En ásælni þessa auðmanns í tiltekna jörð, Grímsstaði á Fjöllum, er víti til varnaðar getum við sagt um það sem hér gæti hent. Það er staðreynd að þegar veifað var dollarabúntunum framan í fjárvana sveitarfélög var mikil löngun að ná í þau dollarabúnt.

Þá spyr maður sjálfan sig og þar kem ég að þessu víti til varnaðar: Hvað kostar að kaupa upp Ísland? Hvað mundi það kosta? Hvað kostar t.d. að kaupa Mývatnssveitina ef þú ert með nógu mikla peninga? Í Alaska sem er eitt af ríkjum Bandaríkjanna, landi einkaeignarréttarins, er, ef ég fer rétt með sem ég held að ég geri, á milli 90 og 100% af landi í þjóðareign. Landið er allt í þjóðareign. Svo er afnotaréttur af landinu, menn láta þetta ekki af hendi.

Ég hugsa þessi mál og við gerum það til mjög langs tíma. Það er alveg rétt að ekki hefur orðið mikill útflutningur af eignarhaldi á landi en hann hefur þó orðið. (Forseti hringir.) Við þekkjum það úr Mýrdalnum svo dæmi sé tekið. Við höfum fleiri dæmi um það og við höfum dæmi um þessa ásælni og við hugsum þetta mál ekki í fimm árum, tíu árum, 20 árum heldur í 500 árum og líka um spurninguna hvar við viljum að eignarhaldið á auðlindum okkar sé.