146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

viðbótarkvóti á markað.

[13:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Einmitt þess vegna fær nefndin ekki mjög langan tíma, það er allt til. Við þekkjum alveg grunninn og höfum þekkinguna, hún liggur fyrir, rannsóknir, margs konar álit sem sett hafa verið fram hér á þinginu í gegnum tíðina. En ég verð að segja að eitt besta tækifæri til að fara markaðsleiðina, uppboðsleiðina, sem við hv. þingmaður erum svolítið sammála um, og er hægt að taka undir eitt og annað sem hv. þingmaður sagði hér áðan, var í tíð vinstri stjórnarinnar þegar nýr stofn, makríllinn, kom inn í íslenska lögsögu. Þá var ekki farin sú leið sem m.a. Samfylkingin hefur talað um. Þá var gullið tækifæri, nýr stofn í íslenskri lögsögu, að prófa sig áfram með nýjar leiðir. Núna þegar við stöndum frammi fyrir því (Gripið fram í.) að setja niður nefnd sem hefur það veigamikla hlutverk að ná sátt — ég mun halda henni við efnið, ég hef mínar skoðanir, ég tel að ríkið eigi að fá sanngjarna greiðslu fyrir aðganginn að auðlindinni af hálfu þeirra sem sækja í auðlindina. Það er þannig. Ég trúi því að allir flokkar muni leggja sig fram um að ná sátt til að hér ríki stöðugleiki og að við gerum þetta ekki að pólitísku þrætuepli fyrir næstu kosningar, þarnæstu kosningar og þarþarnæstu kosningar. Til þess er allt of mikið í húfi.