146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy kærlega fyrir þessa umræðu. Ég reikna fastlega með að hann muni halda áfram að vekja athygli á upplýsingatæknimálum meðan hann situr hér á þingi. Ég þakka sömuleiðis fjármálaráðherra fyrir hans svör. Þetta er frekar skammur tími til að ræða um stórt mál og ég þakka fyrir að nánari gögn muni birtast núna á vef fjármálaráðuneytisins.

Það eru nokkur atriði sem ég vil nefna hér á þessum stutta tíma. Í fyrsta lagi vil ég tala aðeins um kostnaðinn. Það hefur komið fram í gögnum, á fundi sem var haldinn á vegum fjármálaráðuneytisins, að áætlað er að upplýsingatæknikostnaður hjá ríkinu sé að meðaltali um 7% af rekstrarkostnaði stofnana. Það séu þá um 15 milljarðar kr. á ári sem er verið að eyða í upplýsingatæknimál á vegum ríkisins. Hér erum við því að ræða um umtalsverðar fjárhæðir. Það kom líka fram á þessum fundi að það er verulega mikið af verkefnum, að við stöndum einfaldlega mjög illa þegar kemur að upplýsingatæknimálum. Ekki er miðlæg samræming gagnaskipta milli upplýsingatæknikerfa ríkisins, við erum komin mjög skammt á veg með tölvuskýjavæðingu, við erum hvorki með stefnu né markvissar aðgerðir um nýtingu tölvuskýja eða almennt varðandi umsýslu og rekstur helstu upplýsingatæknikerfa. Fjölmargar stofnanir sinna sambærilegum verkefnum hver í sínu lagi við að hanna og viðhalda vefsíðum. Það nægir að líta á Stjórnarráðið sjálft.

Það má líka nefna sérstaklega að ég held að veruleg tækifæri séu þegar kemur að innkaupamálum. Við vorum að ræða það í allsherjar- og menntamálanefnd, þegar kemur að kaupum á búnaði vegna gerðar vegabréfa, hversu mikilvægt er að huga að innkaupum og hve mikið væri hægt að spara þar. Það er ánægjulegt að sjá að menn ætla sér að reyna að nýta betur kaupkraft ríkisins en áætlað er að þar sé hægt að spara milljarða. Að lokum vil ég nefna sérstaklega og taka undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur varðandi það sem snýr að (Forseti hringir.) netöryggi. Ef það er einhver ríkisstjórn sem ætti að leggja áherslu á netöryggi er það sú ríkisstjórn sem er með forsætisráðherra sem hefur orðið fyrir tveimur af stærstu tölvugagnalekum í sögunni í heiminum.