146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[15:59]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992.

Meginmarkmið breytinganna er að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslenska löggjöf. Samhliða frumvarpi þessu er lagt til frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Frumvarpið er byggt á vinnu starfshóps sem skipaður var af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra árið 2014 og hafði það hlutverk að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í starfshópnum sátu fulltrúar hagsmunasamtaka notendaþjónustu þessara tveggja lagabálka, þar með talið fatlaðs fólks og eldri borgara, en einnig fulltrúar félagsmálastjóra sveitarfélaga og fulltrúi innanríkisráðuneytisins.

Drög að frumvörpunum voru sett á heimasíðu ráðuneytisins í opið umsagnarferli sumarið 2016 og bárust fjölmargar umsagnir. Hópurinn skilaði svo tillögum sínum í október 2016. Helstu breytingar og efnisatriði frumvarpsins eru þessi:

Í frumvarpinu er lagt til að heiti laganna verði lög um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og að þau komi í stað gildandi laga um málefni fatlaðs fólks. Ástæða þessarar nafngiftar er að undirstrika annars vegar að hér er um að ræða þjónustulög og hins vegar að þeim er ætlað að mæta einstaklingum sem eru með meiri þjónustuþarfir en svo að þeim verði mætt með almennum hætti. Er því lagt til að um almenna þjónustu við fatlað fólk gildi ákvæði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en samhliða frumvarpi þessu er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ákvæðum þeirra laga. Er þannig almennri stoðþjónustu gert hærra undir höfði og lagt til að mörkin liggi u.þ.b. við 10–15 klukkustunda þjónustuþörf á viku.

Í markmiðsákvæði frumvarpsins og skilgreiningum er gengið út frá ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá er í frumvarpinu tekið á gráu svæði sem myndast hefur milli laga um málefni fatlaðs fólks og laga um málefni aldraðra þar sem einstaklingur sem orðinn er 67 ára getur átt rétt samkvæmt báðum lögum.

Stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra hafa verið endurskoðaðar og styrktar í frumvarpinu, m.a. þannig að ráðherra getur nú skorið úr um ágreining um hvort reglur sveitarfélags eigi sér fullnægjandi lagastoð. Þá er kveðið á um að ráðherra skuli veita einkaaðilum starfsleyfi sem hafi það meginmarkmið að veita fötluðu fólki þjónustu.

Í frumvarpinu er kveðið á um að fatlað fólk skuli eiga rétt á fjölbreyttri þjónustu sem komi til móts við tilteknar þarfir þess. Þar er m.a. að finna nýmæli um notendasamninga og notendastýrða persónulega aðstoð, NPA, auk ákvæða um einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir og þjónustuteymi. Í því felst mikilvæg réttarbót. Ákvæði um NPA er unnið á grundvelli tillagna frá verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð sem starfaði frá árinu 2011 til loka árs 2016.

Í frumvarpinu er að finna nokkur nýmæli um þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra sem lúta annars vegar að frístundaþjónustu við fatlaða nemendur og hins vegar að úrræðum fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir. Ákvæði um atvinnumál eru færð til samræmis við viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga um framtíðarskipan atvinnumála fatlaðs fólks, dagsetta 28. september 2015, sem byggist á þeirri stefnu að um atvinnumál fatlaðs fólks skuli fara eins og um atvinnumál almennt.

Þá er kveðið á um að starfrækja skuli samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og lagt til að lögfest verði skylda ráðherra til að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Ákvæði um málsmeðferð hafa einnig verið endurskoðuð.

Hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir þeim meginbreytingum sem í frumvarpinu felast. Í því er að finna mjög þýðingarmiklar réttarbætur varðandi þá þjónustu sem fötluðu fólki stendur til boða. Í því eru jafnframt innleidd þau ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem snúa að þjónustu. Ég tel að með frumvarpi þessu, verði það að lögum, séum við að taka stórt skref og afar mikilvægt í átt að því að uppfylla ákvæði samningsins og standa við þær skyldur sem við höfum undirgengist með undirritun og fullgildingu hans. Ég tel einnig mikilvægt að geta þess að frumvarp þetta var unnið í mikilli samvinnu og sátt við hagsmunasamtök fatlaðs fólks og að samstaða hafi náðst í mörgum þeim stóru málum sem frumvarp þetta snertir.

Ég leyfi mér því að leggja til, hæstv. forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.