146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Já, það varpaði nokkru ljósi á málið. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem velferðarnefnd þurfi að skoða mjög vel því að um mjög viðkvæmt mál er að ræða. Mig langar einnig að spyrja hæstv. ráðherra út í ákvæði til bráðabirgða þar sem sett er upp plan um samninga allt til ársins 2022: Eru þessir samningar fullfjármagnaðir í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem liggur nú fyrir Alþingi, og við erum einnig að ræða, eða á eftir að tryggja fjármagn til þess að það plan sem hér er lagt fram gangi upp? Einhverjir kynnu að segja að við þyrftum fleiri samninga en það skiptir alla vega máli inn í umræðuna að vita hvort þetta plan sé fullfjármagnað.