146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

þjónusta við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

438. mál
[16:19]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég játa vanþekkingu mína á því hvernig kostnaðarmatið var nákvæmlega reiknað upp. Það var hins vegar starfandi sérfræðingahópur til að meta mögulegt umfang þessa úrræðis eða hvað mætti vænta að þyrfti marga slíka samninga og einnig að meta þann fjölda tíma sem væri að baki hverjum samningi. Þessi kostnaðaráætlun byggir, bæði hvað varðar umfang samninga og kostnað þeirra, á mati þess hóps. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að það mat sé fyllilega raunhæft. Hitt er hins vegar ekkert launungarmál að það er áfram óleyst deilumál milli ríkis og sveitarfélaga sem snýr að kostnaðarhlutdeild þar sem ríkið greiðir 25% af ætluðum heildarkostnaði en sveitarfélögin hafa gert kröfu um 30%.