146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

farþegaflutningar og farmflutningar.

128. mál
[21:38]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Rafmagn verður það alla vega. Hvort sem menn velja, út af hagkvæmnisástæðum til að byrja með, vagna í staðinn fyrir eitthvað sem gengur á teinum eða hvað þá kemur það einfaldlega í ljós. Ég er ekki svo spámannlega vaxinn að ég treysti mér til þess að gera upp á milli þessa hér og nú. Það er verulegur munur þó á vegna þess að Reykjavík er dálítið holótt og hæðótt, ég tala nú ekki um leiðina áfram út úr bænum. Það er mun ódýrara að treysta á vagna á hjólum, venjulegum hjólbörðum, heldur en að þurfa að leggja teina. Það er gjörólíkt og um leið og við erum komin inn í einhvers konar jarðgangagerð í þessum bæjarfélögum hér erum við komin út í allt aðra sálma.

Nú er það þannig að götur Reykjavíkur eru byggðar upp án þess að menn hafi nokkurn tímann hugsað út í alvörualmenningssamgöngur, kannski ólíkt mörgum öðrum borgum þar sem eru breið stræti. Það er mjög lítið um þau hér. Það er að vísu töluvert af grænum svæðum sem er einhvern veginn hægt að þræða, en það verður ekkert létt verk, hvorki að byggja borgarlínu og leggja hana þannig að vel fari, né tengingar út í önnur bæjarfélög með sama hætti og borgarlínan, ef menn fara svo langt.

Ég held svo sem að við séum meira sammála, hv. þingmaður og ég, en hann heldur og eigum báðir eftir að setjast upp í annaðhvort einhvers konar léttlest eða rafvagn og komast um borgina. Ég spái því alla vega.