148. löggjafarþing — 61. fundur,  9. maí 2018.

tollalög.

581. mál
[20:15]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á þessu máli. Framlagning þess nú sýnir að stjórnsýslan getur virkað hratt þegar við förum af stað. Það er pínulítið sorglegt að sjá að þeir hv. þingmenn sem hæst hafa talað fyrir þessu frumvarpi og framlagningu þess séu ekki hér í salnum. Sérstaklega á það við um hv. þingmenn Viðreisnar. En ég treysti því að umræðan og vinnan í hv. atvinnuveganefnd um þessi mál verði þeim mun betri fyrir vikið, að menn séu að spara sig fyrir hana.

Mig langar aðeins að syndga upp á náðina og ræða hér almennt um tollamál og landbúnaðarvörur og vona að virðulegur forseti sýni mér örlitla miskunn í því og berji mig ekki úr pontu með bjölluslætti. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á er akkúrat í þessu máli ekki endilega verið að tala um vörur sem eru í samkeppni við innlenda framleiðslu. Þetta er náttúrlega hluti af stærri samningum og miklum frumskógi samninga. Þetta tengist nú allt saman.

Í þessari umræðu allri saman hafa menn oft hent á lofti þá reynslu sem við höfum þegar kemur að lækkuðum tollum á grænmeti. Það var gert, ef ég man rétt, árið 2002 og menn hafa margir hverjir vísað í þá reynslu um að niðurfelling eða lækkun tolla styrki innlenda framleiðslu. Það hefur heyrst hér í þessum sal og í umræðunni almennt.

Þess vegna langar mig að rifja aðeins upp hér að þegar það var gert á sínum tíma, þ.e. þegar tollar á grænmeti voru lækkaðir, kom uppbygging í kjölfarið sem segja má að sé ekki síst að þakka þeim mótvægisaðgerðum sem stjórnvöld gripu til. Það var hugsað sérstaklega til þess að ef ekkert yrði gert væri hætta á að draga myndi úr þessum hluta landbúnaðarins og gerður var samningur við garðyrkjubændur sem innihélt beingreiðslur og stuðning til nýfjárfestinga, úreldingar á eldri rekstrareiningum auk niðurgreiðslu á raforku. Í fjárlögum í ár eru framlög til greinarinnar vegna garðyrkjusamnings 550 millj. kr. Það er á þessum grunni sem garðyrkjubændum hefur verið gert kleift að takast á við breytingar í starfsumhverfi sínu vegna aukins innflutnings á garðyrkjuafurðum.

Ég vildi draga þetta hér fram til að við munum að þetta er ekki allt svona einfalt eins og sumir vilja vera láta þegar rætt er um niðurfellingu tolla á landbúnaðarafurðum. Það þarf að huga vel að innlendu framleiðslunni ef það er á annað borð vilji okkar að hún blómstri, svo að ég leyfi mér að nota þá líkingu þar sem ég er að ræða töluvert um garðyrkju.

Þess vegna er mikilvægt að í kjölfarið á framkvæmd þess tollasamnings sem til dæmis tók gildi síðustu mánaðamót fari fram mikil greining á því hver áhrif þess samnings gætu orðið á samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra, í umræðum um málið á dögunum, tók undir að fylgst yrði með því hvaða áhrif þetta hefði. Ég fagna því sérstaklega, sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan, að hann myndi beita sér fyrir því að kannað yrði hvernig stæði á með það að hefja þá viðræður á hinum endanum, til að ræða tolla þegar kemur að útflutningi innlendra landbúnaðarvara.

Ég vildi aðeins draga þetta fram því að umræðan í þessum málum er oft gerð dálítið svart/hvít. Okkur hættir sumum hér inni til að einfalda hlutina. Þetta sé gott og hitt slæmt. Það sé ekkert þar á milli. En veruleikinn er oft örlítið flóknari en svo. Við skulum hafa það í huga, þegar við horfum til dæmis til garðyrkjunnar, að það var vel heppnuð aðgerð af því að tollalækkunum fylgdu mótvægisaðgerðir.