149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

staða Íslands gagnvart ESB.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu 2009, m.a. með mínu atkvæði, var lögð fram tillaga um að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi haldin áður en slík umsókn yrði lögð fram. Sú tillaga var felld og ég hef sagt það seinna meir að það hefði verið öllum til góða að samþykkja þá tillögu og ráðast í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu áður en ákveðið var að sækja um aðild.

Mín skoðun er sú að það hefði verið betra, að það hafi ekki verið rétt ákvörðun hjá okkur, sem stóðum að því að fella þá tillögu, að fella hana. Það er stórmál, meiri háttar mál, að ákveða að fara í slíkar aðildarviðræður og því vil ég segja hv. þingmanni að ég hef sagt það síðan, eftir að hafa ígrundað þessi mál og farið yfir þau töluvert vel, ekki síst á vettvangi minnar hreyfingar, að ég myndi telja óráð að ráðast í slíka umsókn á nýjan leik án þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég er sammála hv. þingmanni um það.